Gunnhildur Gunnarsdóttir átti góðan leik fyrir Snæfell. Hún sækir hér hart að körfu Blika. Ljósm. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks.

Snæfell aftur á sigurbraut

Snæfell vann góðan útisigur á baráttuglöðu liði Breiðabliks, 72-82, í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi.

Breiðablik skoraði fyrstu stigin en Snæfell tók yfirhöndina og komst í 3-13 og höfðu síðan tólf stiga forskot eftir upphafsfjórðunginn, 16-28. Breiðabliksliðið kom ákveðið inn í annan leikhluta og minnkaði muninn jafnt og þétt á meðan Snæfell átti erfitt uppdráttar. Blikar komu forystu Snæfells niður í eitt stig, 32-31 skömmu eftir miðjan leikhlutann. Snæfell stóðst þó áhlaupið og leiddi með fjórum stigum í hálfleik. Staðan í hléinu var 37-41 og leikurinn galopinn.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. En þegar þriðji leikhluti var hálfnáður náðu Snæfellskonur góðum kafla. Þær skoruðu 13 stig gegn tveimur áðru en leikhlutinn var úti og komust 17 stigum yfir, 50-67. Þær héldu forskotinu meira og minna óbreyttu þar til undir lok leiks að Blikar náðu aðeins að laga stöðuna. Lokatölur urðu 72-82, Snæfelli í vil.

Kristine McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 29 stig, 13 fráköst og sex stoðsendingar. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 22 stig og tók tíu fráköst og Angelika Kowalska var með 14 stig og sjö fráköst.

Sanja Orazovic fór fyrir liði Breiðabliks með 27 stig og sex stoðsendingar. Sóllilja Bjarnadóttir skoraði 15 stig og Telma Lind Ásgeirsdóttir ellefu.

Snæfell hefur 22 stig í þriðja sæti deildarinnar, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir ofan en tveimur stigum á eftir toppliði KR. Næsti leikur liðsins er stórleikur gegn Keflavík í Stykkishólmi mánudaginn 14. janúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir