Shequila Joseph og félagar hennar í Skallagrími náðu sér engan veginn á strik gegn Val. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímskonur steinlágu gegn Val

Það var fremur þunnskipað lið Skallagríms steinlá gegn Val á útivelli, 83-43, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í gærkvöldi. Liðið lék án Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur og munaði um minna.

Valskonur tóku afgerandi forystu snemma í fyrsta leikhluta, komust í 21-6 eftir sjö mínútna leik og leiddu 26-11 eftir upphafsfjórðunginn. Leikurinn hélt áfram með svipuðu sniði í öðrum leikhluta. Valur hélt áfram að bæta við en Skallagríms konur fundu engan veginn taktinn. Staðan í hálfleik var 44-21 fyrir Val og úrslit leiksins svo gott sem ráðin.

Bilið milli liðanna breikkaði enn frekar eftir hléið. Valur leiddi með 62 stigum gegn 34 eftir þrjá leikhluta og að lokum fór svo að liðið sigraði með 40 stiga mun, 83-43.

Brianna Banks var stigahæst í liði Skallagríms með 16 stig og sex fráköst. Shequila Joseph skoraði tíu stig og tók þrettán fráköst en aðrar höfðu minna.

Heather Butler skoraði 16 stig og tók fimm fráköst í liði Vals, Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði 14 stig og gaf sjö stoðsendingar, Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði tólf stig og tók átta fráköst og Helena Sverrisdóttir var með ellefu stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með átta stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en átta stigum á eftir Stjörnunni í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Skallagrímur gegn botnliði Breiðabliks í kvöld, miðvikudaginn 16. janúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir