Berglind Gunnarsdóttir verst Guðbjörgu Sverrisdóttur, leikmanni Vals í leiknum á laugardagskvöld. Ljósm. Valur.

Snæfellskonur töpuðu gegn Val

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Val, 78-70, þegar liðin mættust í fyrsta leik Domino‘s deildar kvenna eftir jólafrí á laugardaginn var. Leikið var á Hlíðarenda í Reykjavík.

Valskonur höfðu yfirhöndina í upphafi leiks en Snæfell var þó ekki langt undan. Heimaliði náði hins vegar góðri rispu undir lok fyrsta leikhluta og hafði 16 stiga forystu að honum loknum, 30-14. Snæfell lagaði stöðuna lítið eitt í upphafi annars fjórðungs en eftir það gekk liðunum illa að skora. Þau tóku við sér þegar nær dró hálfleik en Valur hafði áfram afgerandi forskot, 47-32.

Snæfellskonur voru heldur sterkari og minnkuðu muninn í níu stig fyrir lokafjórðunginn, 65-56. Afleit byrjun í fjórða leikhluta gerði hins vegar út um allar sigurvonir Snæfells. Þær skoruðu ekki stig fyrstu þrjár mínúturnar en á meðan jók Valur forskotið í 14 stig. Snæfellskonur náðu að minnka muninn niður í átta stig seint í leiknum en það var um seinan. Valur sigraði að lokum með 78 stigum gegn 70.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 29 stig, 16 fráköst og sjö stoðsendingar. Berglind Gunnarsdóttir skoraði 14 stig og Katarina Matijevic var með tíu stig og sex fráköst.

Dagbjört Samúelsdóttir skoraði 22 stig og gaf fimm stoðsendingar í liði Vals, Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 13 srtig, Helena Sverrisdóttir tólf stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar og Hallveig Jónsdóttir tólf stig.

Snæfell er í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig, jafn mörg og Keflavík en tveimur stigum á eftir toppliði KR. Næst leikur Snæfell miðvikudaginn 9. janúar, þegar liðið mætir Breiðabliki á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir