Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og félagar hennar í Skallagrími máttu sætta sig við tap gegn Haukum. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímskonur töpuðu í kaflaskiptum leik

Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik hófst að nýju eftir jólafrí sl. laugardag. Skallagrímskonur heimsóttu Hauka og máttu sætta sig við tap eftir nokkuð kaflaskiptan leik, 72-69.

Borgnesingar höfðu undirtökin í byrjun leiks en Haukar náðu yfirhöndinni um miðjan fyrsta leikhluta og góður sprettur undir lok fjórðungsins skilaði þeim ellefu stiga forskoti, 28-17. Haukakonur juku forskotið í 14 stig snemma í öðrum en Skallagrímskonur sóttu í sig veðrið eftir því sem líða tók nær hálfleiknum. Þær minnkuðu muninn jafnt svo aðeins munaði fimm stigum þegar hálfleiksflautan gall, 40-35.

Liðin fylgdust að í upphafi síðari hálfleiks áður en Haukar náðu yfirhöndinni að nýju. Hægt en örugglega náði heimaliði 14 stiga forskoti og brekkan orðin brött fyrir Skallagrím fyrir lokafjórðunginn. En þar voru Skallagrímskonur ákveðnar og börðust af krafti. Þær minnkuðu muninn í sex stig snemma í fjórða leikhluta. Þær héldu Haukum síðan stigalausum síðustu fjórar mínúturnar, minnkðu muninn niður í þrjú stig í leikslok en komust ekki nær. Haukar sluppu með skrekkinn og sigruðu með 72 stigum gegn 69 stigum Skallagríms.

Shequila Joseph var atkvæðamest í liði Skallagríms me ð26 stig og þrettán fráköst. Brianna Banks skoraði 17 stig og gaf sjö stoðsendingar og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með ellefu stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar.

Þóra Kristín Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og setti upp þrennu í liði Hauka. Hún skoraði 13 stig, tók ellefu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Klaziena Guijt var hins vegar stigahæst með 16 stig, Sigrún Björg Ólafsdóttir skoraði 15 stig og tók sex fráköst og Elele Hardy var með ellefu stig, sjö fráköst og sex stolna bolta.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með átta stig eftir 14 leiki, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en átta stigum á eftir Stjörnunni og Val í sætunum fyrir ofan. Næst leika Skallagrímskonur einmitt gegn Val á útivelli á miðvikudaginn, 9. janúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira