Slys í steypuskála Norðuráls

Slys varð í álveri Norðuráls á Grundartanga um kvöldmatarleytið í gær þegar starfsmaður brenndist á olnboga, úlnlið og fingrum. Sólveig Kr. Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli, greinir frá þessu í tilkynningu sem birtist í starfsmannahópi fyrirtækisins á Facebook. Tildrög slyssins voru þau að starfsmaður í steypuskála var að undirbúa sig við að skafa rennu frá ofni. Virðist sem starfsmaðurinn hafi fallið og borið hendurnar fyrir sig með þeim afleiðingum að hann hlaut brunasár á olnboga, úlnlið og fingrum vinstri handar. „Hann var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar og venju samkvæmt mættu fulltrúar lögreglu og Vinnueftirlitsins á vinnusvæðið í kjölfarið,“ segir Sólveig og sendir starfsmanninum batakveðjur fyrir hönd fyrirtækisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir