Kristen McCarthy á heimavelli í Stykkishólmi.

„Ísland á alltaf sinn stað í hjarta mínu“

– segir körfuknattleikskonun Kristen McCarthy í Stykkishólmi

 

Kristen McCarthy kom fyrst til Íslands haustið 2014 til að spila með Snæfelli í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Hún heillaðist af landi og þjóð og eftir að hafa reynt fyrir sér á meginlandi Evrópu sneri hún aftur í Stykkishólm fyrir rúmu ári síðan. Hún lítur í dag á Ísland sem sitt annað heimili, sér fyrir sér að búa hér á landi til frambúðar. Kristen hefur sótt um íslenskan ríkisborgararétt og dreymir um að spila með landsliðinu. Skessuhorn hitti Kristen í Hólminum á fallegum desembermorgni og ræddi við hana um körfuna, Stykkishólm, kynni hennar af landi og þjóð en síðast en ekki síst hana sjálfa.

 

Körfuboltinn alltaf í uppáhaldi

„Ég kem frá Suður-Kaliforníu, frá litlum bæ sem heitir San Dimas sem er í um það bil 35 til 40 mínútna akstursfjarlægð austur af Los Angeles,“ segir Kristen. „Ég er fædd árið 1990 og á tvo bræður og tvær systur. Ég er næstelst. Fjölskyldan mín er frekar stór. Pabbi á fimm börn og mamma tvö,“ bætir hún við. Kristen segir að körfuboltinn hafi alla tíð skipað stóran sess í hennar lífi. Flestar hennar minningar úr barnæsku tengjast körfubolta með einum eða öðrum hætti. „Ég byrjaði að spila þegar ég var fimm ára. Sama ár spilaði ég fyrsta keppnisleikinn minn. Ég man að við kepptum í appelsínugulum treyjum og spiluðum leikina úti í góða veðrinu í Kaliforníu,“ segir hún og brosir. „Mamma lét mig og bróður minn prófa nánast allar íþróttir nema knattspyrnu. Körfuboltinn varð strax uppáhalds íþróttin mín, ásamt frjálsum. En ég ákvað að halda mig við körfuna og geri það enn,“ segir hún og brosir. Kristen fór hina hefðbundnu amerísku leið í körfunni, spilaði í gegnum allt skólakerfið. „Ég spilaði í framhaldsskóla og fékk síðan námsstyrk til að spila í háskólaboltanum. Þar lék ég með Temple University í Fíladelfíu. Þannig að ég fór alla leið yfir á austurströndina í háskóla. Þar var ég frekar langt að heiman, sem bjó mig undir það að spila síðar sem atvinnumaður í Evrópu,“ segir hún.

 

Þekkti lítið til landsins

Haustið 2014 lá leið hennar fyrst til Íslands, þegar hún gekk til liðs við Snæfell. Ingi Þór Steinþórsson, sem þá þjálfaði liðið, fékk hana til að koma til landsins. „Ég vissi ekki mikið um landið áður en ég kom hingað þannig að ég gúgglaði „Iceland“. Þá fékk ég upp myndir af nokkrum fossum og síðan eldgosinu í Eyjafjallajökli sem þá stöð sem hæst. Ég spurði hvort það væri yfir höfuð öruggt að koma til landsins en Ingi sagði að þetta væri allt í lagi, sem það var auðvitað,“ segir hún. Kristen segir að það hafi auðvitað verið ákveðin viðbrigði að koma frá fjölmenninu á Los Angeles svæðinu í lítinn bæ á Íslandi. „Ingi sótti mig á flugvöllinn og við keyrðum vestur í Stykkishólm. Þar fór hann með mig hring um bæinn og sýndi mér hvar allt væri. Mér fannst eins og ég hefði rétt blikkað augunum og þá var hringnum lokið. Var ekkert meira?“ segir hún og hlær við endurminninguna. „En ég var fljót að læra að meta hvað allt er smátt í sniðum. Í Bandaríkjunum er maður vanur að þurfa að keyra út um allt eftir öllu sem maður þarf að gera. Á mínum heimaslóðum skipuleggur fólk daginn sinn út frá umferðinni,“ segir hún. „Hérna get ég labbað í búðina, í ræktina, út að borða, í heimsókn til vina minna. Það er allt svo nálægt. Ef maður þarf að mæta einhvert þá fer leggur maður bara af stað fimm mínútur í og er mættur á réttum tíma,“ bætir hún við. „Fyrir vikið hefur fólk meiri tíma fyrir sig. Í Kaliforníu fer ótrúlega mikill tími í að sitja fastur í umferðinni. Það er ótrúlegt hvað það er miklu meira afslappandi að vera laus við hluti eins og umferðina. Ég elska það,“ segir Kristen og brosir.

 

Sjá nánar í viðtali við Kristen í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira