Mæðgurnar Jóhanna Kristín Þorsteinsdóttir, Dalrós Líf og Friðmey Dóra misstu allar eigur sínar í húsbruna síðasta sumar. Núna er búið að laga húsið og þær fluttar inn á ný. Ljósm. arg.

Náði að flytja inn fyrir jól eftir að hafa lent í húsbruna síðasta sumar

Föstudagskvöldið 29. júní síðastliðinn lentu mæðgurnar Jóhanna Kristín Þorsteinsdóttir, Dalrós Líf og Friðmey Dóra í því að missa allar eigur sínar í húsbruna við Skagabraut á Akranesi. Á afmælisdegi Dalrósar föstudaginn 14. desember síðastliðinn, um fimm og hálfum mánuði eftir húsbrunann, fengu þær húsið sitt afhent á ný eftir viðgerðir og fluttu þær inn á sunnudaginn. Blaðamaður Skessuhorns leit við hjá þeim seinnipart mánudags og var þá mikið líf og fjör á heimilinu. Þær Dalrós og Friðmey voru með nokkrar vinkonur í heimsókn sem allar voru spenntar að sjá nýuppgert heimilið. „Við bjuggum á Tindaflöt á meðan unnið var í húsinu og það er svo langt fyrir vini stelpnanna að koma þangað svo þær hafa beðið spenntar eftir að geta fengið vini í heimsókn,“ segir Jóhanna. Hún stefndi alltaf á að flytja inn aftur fyrir jól, sem hafðist naumlega. „Það er gott að koma hingað aftur en það er þó ekki allt klárt,“ segir hún og bendir blaðamanni á að enn eigi eftir að ljúka við að gera upp neðstu hæð hússins.

„Við erum gríðarlega þakklát öllum þeim sem hjálpuðu okkur og styrktu eftir brunann. Einnig vil ég skila þakklæti til allra þeirra iðnaðarmanna sem unnu í húsinu,“ segir Jóhanna þakklát að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir