Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur ritaði Sögu Borgarness ásamt Agli Ólafssyni frænda sínum.

Verðlaunað fyrir Sögu Borgarness

Verðlaunanefnd sjóðs sem kenndur er við Gjöf Jóns Sigurðssonar hefur tilkynnt um úthlutanir sjóðsins fyrir þetta ár. Sjóðurinn var stofnaður samkvæmt erfðaskrá Ingibjargar Einarsdóttur, ekkju Jóns Sigurðssonar forseta, árið 1879 og hefur með hléum veitt fræði- og vísindamönnum viðurkenningu fyrir vel samin rit og styrkt útgáfu þeirra og merkra heimildarrita. Úthlutað er úr sjóðnum annað hvert ár. Að þessu sinni úthlutaði nefndin 17 styrkjum, að upphæð 9,6 milljónir króna. Verðlaunanefnd er skipuð af Alþingi en í henni eiga nú sæti Sturla Böðvarsson, Soffía Auður Birgisdóttir og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.

Meðal styrkþega er Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur fyrir bækurnar Saga Borgarness I og II bindi, Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna. Meðhöfundur Heiðars við söguritunina var frændi hans Egill Ólafsson sem féll frá þegar verkið var í vinnslu. Styrkurinn er upp á hálfa milljón króna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir