Ungur og upprennandi björgunarsveitarmaður virðir fyrir sér vel útbúinn björgunarsveitarjeppa. Ljósm. Björgunarfélag Akraness.

Níutíu ára afmæli björgunarstarfs á Akranesi

Félagar í Björgunarfélagi Akraness og Slysavarnardeildinni Líf ætla að gera sér glaðan dag á morgun, laugardaginn 15. desember. Þá verður þess minnst að 14. desember árið 1928, fyrir 90 árum síðan, var Slysavarnardeildin Hjálpin stofnuð á Akranesi. Var hún ein af fyrstu deildunum sem stofnaðar voru í landinu. Í tilefni af því ætla félagar í Björgunarfélagi Akraness og Slysavarnardeildinni Líf að bjóða til afmælisveislu næstkomandi laugardag. „Við ætlum að minnast þessara tímamóta í sameiningu í húsnæði björgunarfélagsins að Kalmansvöllum 2,“ segir Birna Björnsdóttir, formaður Björgunarfélags Akraness, í samtali við Skessuhorn.

„Við bjóðum öllum sem vilja að koma og kíkja á okkur, kynna sér starfið og það sem við höfum upp á að bjóða eða bara reka inn nefið og fá sér tertusneið. Veislan verður bara afslöppuð og þægileg og ekki mikið tilstand, bara huggulegt kaffiboð milli 14:00 og 16:00. Okkur þætti sérstaklega vænt um að sjá fólk sem hefur starfað með okkur að björgunarstarfi í gegnum tíðina, en að sjálfsögðu eru allir hjartanlega velkomnir,“ segir Birna Björnsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir