Innbrotsþjófurinn í Borgarnesi ófundinn

Lögregla telur að um skipulagt innbrot hafi verið að ræða

Um kvöldmatarleytið í gær, fimmtudag, var brotist inn í íbúðarhús í Borgarnesi og meðal annars stolið skartgripum. Að svo búnu lét þjófurinn sig hverfa. Lögreglan á Vesturlandi leitaði mannsins fram yfir miðnætti en varð einskis vísari.

Að sögn Jóns S. Ólasonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Vesturlandi, ber innbrotið í Borgarnesi merki þess að hafa verið skipulagt. „Þetta innbrot er keimlíkt því sem við höfum séð víða á landinu undanfarna mánuði þar sem farið er inn í hús, þjófarnir eru þar aðeins stutta stund og taka ýmsa smáa en verðmæta muni,“ segir Jón í samtali við Skessuhorn.

Aðspurður segir Jón að engin önnur innbrot hafi verið tilkynnt í landshlutanum. Hann vill engu að síður beina því til fólks að hafa augun hjá sér. „Fólk er beðið að vera á varðbergi og hafa auga með nágrenni sínu, sérstaklega ef það veit af mannlausum húsum í hverfinu, og láta lögreglu vita af óvenjulegum eða grunsamlegum mannaferðum við hús með því að hringja í 112,“ segir Jón að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir