Skátar elda yfir eldi. Ljósm. sm.

Eldað yfir opnum eldi í vetrarkulda

Það er margt sem skátar taka sér fyrir hendur og oft við frumstæðar aðstæður. Á dögunum mættu vaskir skátar úr Skátafélaginu Stíganda í Dölum á fund þar sem verkefnið var að elda utandyra og yfir opnum eldi í kvöldmyrkrinu. Það vildi ekki betur til en svo að Vetur konungur bauð upp á nístingskulda en það virtist ekki koma að sök, þar var gleðin ein við völd þegar fréttaritari leit við. Dalastúlkan Hafdís Inga Ásgeirsdóttir og Elisa DelRio skiptinemi frá Ítalíu gáfu sér tíma til að líta upp frá pottunum og segja örlítið frá verkefninu.

„Það er mjög gaman að læra að elda úti og gera eitthvað sem er erfitt með krökkunum,“ sagði Hafdís Inga og bætti við að hún væri til í að gera þetta oftar. Elisa var ekki síður áhugasöm en hún byrjaði nám sitt við Auðarskóla við skólasetningu í haust og skráði sig í skátana um leið og vetrarstarfið hófst.

„Það er fyndið að elda úti í kulda og myrkri,“ sagði Elisa hlæjandi en hún var að upplifa snjó í fyrsta skipti. Þegar Elísa ákvað að gerast skiptinemi langaði hana til að breyta öllu, fór úr 44.000 manna borg í u.þ.b. 270 manna þorp í Dalabyggð. „Ég þekki næstum alla í skólanum hérna, það er skemmtilegt,“ bætti hinn ítalski skáti við áður en þær stöllur stukku til og héldu eldamennskunni áfram.

Líkar þetta

Fleiri fréttir