Leiðin gerir ráð fyrir brú yfir Þorskafjörð. Reykjanes sést í bakgrunni. Teikning: Multiconsult.

R-leið vænlegust samkvæmt valkostagreiningu

Niðurstaða valkostagreiningar á leiðarvali fyrir veg um Gufudalssveit í Reykhólahreppi er sú að R-leið, tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult, sé vænlegasti kosturinn. Sem kunnugt er gerir sú leið ráð fyrir Vestfjarðavegi um Reykhóla og brú yfir Þorskafjörð.

Eins og áður hefur verið greint frá ráðlagði Skipulagsstofnun stjórnendum Reykhólahrepps að láta gera valkostagreiningu á leiðarvali Vestfjarðavegar. „Þetta var gert til að draga upp skýra, aðgengilega og hlutlæga mynd af þeim valkostum sem liggja fyrir varðandi Vestfjarðaveg 60. Til þess var fenginn óháður aðili sem hefur ekki áður komið að vinnu við V60 og engra hefði hagsmuna að gæta,“ segir í tilkynningunni.

Valkostagreiningin fólst í stuttu máli á mati á tæknilegum, skipulagslegum, umhverfislegum, félagslegum og hagrænum þáttum fjögurra leiða; D2 jarðgangaleið, R-leið, Þ-H leið um Teigsskóg og leið A3. Verkfræðistofan Viaplan var fengin til verksins og var það Lilja Guðríður Karlsdóttir sem vann greininguna og skilaði á 90 blaðsíðna skýslu.

Sem fyrr segir telur Viaplan að R-leið sé vænlegasti kosturinn. Hún sýni betri niðurstöður fyrir tæknilega, skipulagslega, hagræna, umhverfislega og félagslega þætti en hinir kostirnir. Leið A3, sem er útfærsla Vegagerðarinnar á sömu leið, er talin næstbesti kosturinn. Þar á eftir kemur Þ-H leið um Teigsskóg og af þessum fjórum er leið D2 með jarðgöngum undir Hjallaháls talin sísti kosturinn.

 

Sendir Vegagerðinni tóninn

Vegagerðin er í skýrslunni gagnrýnd fyrir við frumathugun sína á tillögu Multiconsult, sem skilað var í haust. Niðurstaða frumathuganar var að Þ-H leið væri vænlegasti kosturinn. Í skýrslunni segir að erfitt hafi verið að bera saman valkosti með tilliti til stofnkostnaðar vegna þess að Vegagerðin hafi hækkað verðlag milli skýrslna 2017 og 2018. Þá sé einnig gagnrýnivert að Vegagerðin hafi ekki metið R-leið eins og hún lá fyrir frá Multiconsult, heldur búið til nýja A3 leið þar sem gert væri ráð fyrir því að endurbyggja þyrfti Reykhólasveitarveg frá Reykhólum að gatnamótum Vestfjarðavegar. „Þessi frávik á milli leiðar A3 og leiðar R gera það að verkum að nær ógerningur er að bera þær saman kostnaðarlega séð og verður það að teljast bagalegt af hálfu Vegagerðarinnar að hafa ekki einnig metið leið R eins og hún lá fyrir til að hægt væri að bera saman annars vegar útreikninga Multiconsult og hins vegar útreikninga Vegagerðarinnar. Viaplan fær ekki séð hvernig slík vinnubrögð geti verið verkefninu til framdráttar, þar sem ljóst er að mun mikilvægara er á þessu stigi að ná raunhæfum innbyrðis samanburði heldur en að uppfæra verðlag,“ segir í skýrslunni.

Til að reyna að leggja mat á stofnkostnað leit Viaplan til svarskýrslu Multiconsult til Vegagerðarinnar. Þar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu Reykhólasveitarvegar á öllum leiðarvalkostum, til að gera alla valkosti samanburðarhæfa. Þar kemur fram að Þ-H leið myndi kosta 8,8 milljarða, R-leið 9,7 milljarða, A3 11,2 milljarða og D2 14,8 milljarða. Til að flækja málið enn frekar er ágreiningur milli Vegagerðarinnar og Multiconsult um mismunandi brúartegundir, en það hefur áhrif á kostnað við leiðirnar. „Er hér mælst til þess að þessir aðilar setjist niður og nái sáttum um þetta atriði þar sem verulegur munur er á kostnaðaráætlunum brúargerðarinnar,“ segir í skýrslunni.

Hvað varðar rekstrarkostnað telur Viaplan hann minnstan á leiðum R og A3, þá Þ-H leið en mestan á leið D2. Munurinn á milli Reykhólaleiðanna og Teigskógarleiðar telst þó innan skekkjumarka.

 

Allar leiðir hafa jákvæð áhrif á samgöngur

Í valkostagreiningu Viaplan segir að ljóst sé að krafan um ódýrustu leiðina út frá stofnkostnaði stangist á við kröfu um náttúruvernd. Kallað er eftir því að Vegagerðin breyti verkferlum sínum á þá leið að unnin sé félagshagfræðileg greining á verkefnum á fyrri stigum, eins og gert er í nágrannalöndunum. Með því sé hægt að taka betur tillit til ófjárhagslegra þátta og útiloka leiðarvalkosti fyrr í ferlinu.

Umferðaröryggi er metið mest á leiðum R og A3 og þær myndu stytta akstursleið skólabíls úr 108 km á dag niður í 58 km. Allar leiðir stytta vegalengdina á sunnanverðum Vestfjörðum. Ef R-leið verður farin og Dýrafjarðargöng tilbúin verða t.a.m. 175 km frá Reykhólum til Ísafjarðar í stað 246 km áður. „Allar leiðir munu hafa jákvæð áhrif á samgöngur, byggðaþróun og ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. R og A3 munu auk þess hafa mikil jákvæð áhrif á samgöngur, byggðarþróun og ferðaþjónustu á Reykhólum sem hinar gera ekki,“ segir í tilkynningu Reykhólahrepps.

Verði R-leið eða A3 fyrir valinu liggur fyrir að leyfisveitingarferlið mun taka lengri tíma en ef Þ-H verður valin, eða um 26 vikur. Þá má gera því skóna að allar leiðir verði kærðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira