Leiðrétting: Kynningarfundur um skipulagsbreytingar vegna skotæfingasvæðis er næsta miðvikudag

Starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar verða með opið hús í Ráðhúsi Borgarbyggðar miðvikudaginn 19. desember næstkomandi milli kl. 17:00 og 18:00. Þar munu þeir kynna tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagi vegna skotæfingasvæðis í landi Hamars. Í frétt sem birtist í Skessuhorni í dag var dagsetning kynningarfundarins misrituð. Hið rétta er að fundurinn er næsta miðvikudag, 19. janúar, sem fyrr segir. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum.

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi 2010-2022 gerir ráð fyrir að breyta landnotkun svæðis í landi Hamars úr landbúnaði í opið svæði til sérstakra nota. Ný reið- og gönguleið verður lögð 400 m sunnan við væntanlegt skotæfingasvæði. Nýr aðkomuvegur verður lagður að svæðinu, frá Bjarnhólum sunnan efnistökusvæðis og verður samnýttur með núverandi reið- og gönguleið. Samhliða því hefur verið auglýst tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir 16,7 ha skotæfingasvæði skammt norður af Borgarnesi. Á svæðinu er gert ráð fyrir sjö bílastæðum, félagshúsi, skeet-velli, riffilbraut og göngustíg frá bílastæði að skeet-velli, og meðfram riffilbraut að takmarki og kúlufangi.

Þessar skipulagstillögur liggja nú frammi í Ráðhúsi Borgarbyggðar og gefst íbúum færi á að gera athugasemdir fyrir 21. janúar 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir