Hellnakirkja.

Viðgerð á Hellnakirkja mjög aðkallandi verkefni

Arnaldur Máni Finnsson sóknarprestur á Staðastað segir að ferðalangar, innlendir sem erlendir, tali oft um og hrífist af öllum litlu fallegu kirkjunum á landsbyggðinni. Það sé þó langt í frá að hægt sé að sýna þær allar eða hafa þær almennt opnar, eins og tíðkaðist, en þær séu vinsælar þegar sómi sé að þeim. Búðakirkja sé dæmi um slíkt og ferðist fólk þvert um heiminn til að gifta sig þar. „Hellnakirkja er líka á svona stað, í magnaðri náttúru, með mikla sögu og steinsnar frá eina opinbera pílagrímastað kaþólskra á Íslandi, Maríulindinni undir hraunjaðrinum. Elsti gripurinn er Maríumynd sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu og sagan er samtengd þessari fortíð sem við svo mörg horfum framhjá,“ segir Arnaldur Máni. Hann bætir því við að undir jökli voru gríðarlega öflug samfélög á þess tíma mælikvarða, þar sem útræðið var grundvöllur lífsafkomunnar fremur en landbúnaðurinn. Hann segir að þó kirkjur á Einarslóni og Laugabrekku séu löngu aflagðar þá sýni staða þeirra í eina tíð hvernig hafi verið búið í landinu. „Ef við gleymum þessu öllu eins og að drekka vatn þá verðum við í raun sögulaus þjóð og þeir reitir sem eru okkur heilagir og skapa tengingu við söguna missa merkingu sína. Það er ástæðan fyrir því að við þurfum ekki bara að bjarga Hellnakirkju frá frekari eyðileggingu heldur hafa sýn fyrir hana sem býr til samhengi og tengingar til framtíðar,“ bætir Arnaldur við. Hann telur að rétti tíminn til að leggjast á árarnar í þessu verkefni sé kominn.

Menningarsjóðurinn undir Jökli hefur boðað til aðventusamsætis næstkomandi sunnudag ásamt sóknarnefndinni til að kynna björgunaraðgerðirnar um leið og skapa á samtal um framtíðarsýn fyrir kirkjuna sem m.a. skartar einu merkasta verki Jóhannesar Helgason útskurðarmeistara frá Gíslabæ á Hellnum en hann varð úti ungur að árum. Jóhannes var af mörgum talinn mesta listamannsefni sinnar tíðar þegar kom að tré og handverki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Af með nagladekkin!

Lögreglan á Vesturlandi er ekki farin að kæra ökumenn fyrir að vera með nagladekk undir bifreiðum sínum. Ekki er byrjað... Lesa meira