Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellingar töpuðu fyrir austan

Snæfell mátti játa sig sigrað gegn Hetti, 84-67, þegar liðin mættust í níundu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Jafnt var á með liðinum framan af fyrsta leikhluta. Heimamenn náðu þó yfirhöndinni um hann miðjan og leiddu með níu stigum þegar leikhlutinn var úti, 23-14. Snæfellingar léku prýðilega í öðrum fjórðungi og minnkuðu muninn niður í fjögur stig áður en flautað var til hálfleiks, 35-31.

Þeir mættu síðan mjög ákveðnir til síðari hálfleiks, komu sér snarlega upp að hlið Hattar og náðu forystunni snemma í þriðja leikhluta. Heimamenn jöfnuðu í 46-46 þegar leikhlutinn var hálfnaður og náðu síðan góðum spretti og ellefu stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 63-52. Snæfellingar náðu ekki að koma til baka í lokafjórðungnum. Leikmenn Hattar stjórnuðu ferðinni og juku forskotið lítið eitt það sem eftir lifði leiks. Þegar lokaflautan gall var munurinn orðinn 17 stig. Höttur sigraði með 84 stigum gegn 67 stigum Snæfellinga.

Reynsluboltinn Darrel Flake var stigahæstur í liði Snæfells með 19 stig og fimm fráköst að auki. Dominykas Zupkauskas átti einnig góðan leik með 17 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar og Aron Ingi Hinriksson skoraði 14 stig.

Charles Clark var með 21 stig og sex fráköst í liði Hattar, David Guardia Ramos var með 18 stig og fimm fráköst og Pranas Skurdauskas skoraði 13 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Snæfell er án sigurs á botni deildarinnar eftir níu leiki, tveim stigum á eftir Sindra í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Snæfell gegn Fjölni fimmtudaginn 13. desember. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Af með nagladekkin!

Lögreglan á Vesturlandi er ekki farin að kæra ökumenn fyrir að vera með nagladekk undir bifreiðum sínum. Ekki er byrjað... Lesa meira