Stöðug áskorun að manna stöður heilsugæslulækna

Eins og fram kom í frétt hér á vefnum í gær þá er skerðing á læknisþjónustu í Grundarfirði þessa vikuna vegna forfalla læknis. Í fréttinni er haft eftir íbúa að það sé læknislaust „sem svo oft áður“. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE vill í þessu samhengi benda á að það gerist sem betur ekki oft að læknir forfallist því mjög erfitt, nánast ómögulegt, er að fylla í skörð lækna sem forfallast með stuttum eða engum fyrirvara. „Þetta er í þriðja skiptið á þessu ári sem vantar lækni og það er miður. Fyrir utan dagana í þessari viku þá gerðist það að lækni vantaði í Grundarfjörð tvo daga í byrjun maí og síðustu vikuna í september,“ segir Jóhanna Fjóla.

„Þegar svona frávik verða er eftir sem áður hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni sem sinnir erindum sem upp koma og hefur beint samband við lækni í Ólafsvík sem er á bakvakt ef á þarf að halda. Á síðustu árum hefur þáttur hjúkrunarfræðinga í móttöku á heilsugæslustöðvum aukist og þeim hafa verið falin fleiri verkefni. Það kom læknir frá Stykkishólmi á þriðjudeginum og var hálfan daginn, sinnti m.a. dvalarheimilinu eins og venjan er á þriðjudögum. Læknirinn tók einnig að sér afgreiðslu rafrænna lyfseðla alla þessa viku. Læknirinn í Ólafsvík kemur á morgun, föstudag og verður með móttöku eftir hádegið,“ segir Jóhanna.

Hún bætir við að læknisþjónustan verður aftur með eðlilegum hætti á mánudaginn í Grundarfirði. „Tímar mánudagsins eru að fyllast en nú í morgun voru enn lausir tveir viðtalstímar hjá lækni þann dag og nokkrir lausir tímar á þriðjudaginn. Það er mikilvægt að það komi fram að þeir sem hringja eða leita til heilsugæslustöðvarinnar eftir þjónustu er leiðbeint og öllum bráðatilvikum er sinnt því auk hjúkrunarfræðings í Grundarfirði er læknir í Ólafsvík á bakvakt og sjúkraflutningsmenn eru á bakvakt í Grundarfirði allan sólarhringinn.“

Jóhanna Fjóla segir að það sé stöðug áskorun stjórnenda að manna stöður lækna á starfssvæðinu því erfiðlega gengur að manna stöður lækna á landsbyggðinni. „Síðast var auglýst eftir lækni til starfa í Grundarfirði síðastliðið sumar en því miður barst hvorki umsókn né fyrirspurn um starfið,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir