Allnokkrir þeirra sem áttu þátt í framkvæmdum við áningarstaðinn við Bjarnarfoss voru viðstaddir verðlaunaafhendinguna ásamt fulltrúum Ferðamálastofu. Ljósm. kgk.

Bjarnarfoss hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Verkefnið Bjarnarfoss í Staðarsveit – aðgengi fyrir alla allt árið, hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2018. Verðlaunin voru veitt síðdegis í gær, miðvikudaginn 5. desember. Er þetta í 24. skipti sem Ferðamálastofa gegnst við útnefningu umhverfisverðlauna, eða óslitið frá árinu 1995. Verðlaunin eru nú í þriðja sinn veitt fyrir verkefni sem hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það var Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri sem afhenti verðlaunin. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, og Margrét Björk Björnsdóttir frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Snæfellsbæjar.

Áningarstaðurinn við Bjarnafoss var útbúinn á árunum 2015 og 2016. Steypt var bílaplan og lagður göngustígur upp að fossinum, til að bæta aðgengi ferðamanna og stýra umferðinni að Bjarnarfossi. Framkvæmdin naut styrks að verðmæti tíu milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Áður hafði sveitarfélagið fengið tæpa hálfa milljón í styrk til hönnunarvinnu áningarstaðarins. „Gott dæmi um hvernig heimafólk og sveitarfélag, með liðsinni Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, hafa unnið faglega að uppbyggingu áningarstaðar þar sem allir geta notið fallegrar náttúru. Staðurinn er nú aðgengilegur allt árið,“ segir í rökstuðningi Ferðamálastofu.

Bjarnarfoss er tignarlegur foss sem fellur fram af stuðlabergshömrum í hlíðarbrúninni upp af Búðum, skammt frá Mælifelli. „Fossinn, ásamt stuðlabergshömrum beggja vegna og gróskumiklum brekkum neðan þeirra, er á náttúruverndarskrá Vesturlands. Fossinn blasir við vegfarendum sem fara um þjóðveginn á sunnanverðu Snæfellsnesi og því ekki að undra að hann hafi dregið til sín ferðafólk í auknu mæli,“ segir í rökstuðningnum. „Göngustígurinn er lagður þannig að hann liðast eftir landinu. Notast var við svokallaðar eco-grindur sem eru lagðar í yfirborð stígsins og þær síðan fylltar með ofaníburði, þannig að auðveldara væri að fara um stíginn t.d. á hjólastól eða með barnakerru. Göngubrúin yfir gilið neðan við fossinn er gerð úr viðardrumbum og fellur vel inn í landslagið. Áningarstaðirnir eru síðan teknir út úr stígnum eftir legu landsins en þeir eru lagðir með náttúruhellum. Þar er einnig að finna áningarborð. Gott bílastæði er við upphaf stígsins og gamla brúin við veginn var endurgerð samkvæmt upprunalegum teikningum frá árinu 1949.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir