Róið til veiða frá Ólafsvík á liðnu sumri. Ljósm. úr safni/ af.

Byggðarlög á Snæfellsnesi fá byggðakvóta

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur úthlutað samtals 14.305 tonnum í sértækan og almennan byggðakvóta. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er 5,3% af heildarafla í hverri tegund dregið af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa tímabundinna ráðstafana til að auka byggðafestu.  Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 94 tonn frá síðasta fiskveiðiári og verður 6.429 tonn fiskveiðiárið 2018/19. Markmiðið með þessum kvóta Byggðastofnunar er að stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og ná þannig að skapa og viðhalda sem flestum heilsársstörfum við veiðar og vinnslu, sem og afleidd störf í sjávarbyggðum.

Almennur byggðakvóti fyrir fiskveiðiárið 2018/19 nemur samtals 7.876 tonnum, sem eru 6.168 þorskígildistonn. Samtals fá 45 byggðarlög í 27 sveitarfélögum úthlutað byggðakvóta að þessu sinni. Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi bygðarlag á annað borð rétt til úthlutunar og fá fjögur byggðarlög þá úthlutun.

Fimm byggðarlög á Vesturlandi fá úthlutað byggðakvóta að þessu sinni; Arnarstapi 15 tonn, Grundarfjörður 190 tonn, Hellissandur 29 tonn, Ólafsvík 300 tonn og Stykkishólmur 19 tonn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir