Mun ræða við forystu flokksins áður en þingseta verður ákveðin

Jón Þór Þorvaldsson flugstjóri hjá Icelandair er 1. varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Nú hefur Bergþór Ólason þingmaður tekið sér ótímasett leyfi frá þingstörfum og því þarf að kalla inn varamann. Skessuhorn hafði samband við Jón Þór og spurði hvort hann hygðist leggja flugmannshúfuna á hilluna og taka sæti á þingi. „Ég get ekki svarað því hér og nú,“ segir Jón Þór. „Ég mun bæði ráðfæra mig við fyrirtækið sem ég vinn hjá og fjölskyldu mína áður en ég tek þá ákvörðun. Ekki síst ætla ég þó áður að eiga fund með forystu Miðflokksins,“ segir Jón Þór. Hann segir að atburðir þeir sem leiddu til þess að þingmennirnir Bergþór og Gunnar Bragi Sveinsson hafa tekið leyfi frá þingstörfum séu alvarlegir og hann hafi enga tilhneygingu til að fegra þá eða bera í bætifláka fyrir óafsakanlega framgöngu þeirra eða annarra þingmanna sem í hlut áttu á Klausturbarsfundinum.

„Það er ekki hægt að skauta framhjá því að mönnum hefur brugðist dómgreind. Ég mun á fundum í dag með Bergþóri og vonandi einnig formanni flokksins, kalla eftir afdráttarlausum svörum um það hvort að baki liggur raunveruleg iðrun og að menn ætli að bæta sig. Það er mitt álit að hvort sem í hlut eiga þjóðkjörnir fulltrúar, embættismenn, starfsfólk á vegum stofnana eða Stjórnarráðs, fólki verður að vera treystandi til að bera hag alþýðunnar fyrir brjósti og haga sér í samræmi við stöðu sína. Ég mun því ekki taka sæti á Alþingi nema vera þess fullviss að menn sjái eftir því sem gerst hefur og geti fullvissað mig um að snúa eigi við blaðinu. Óhófleg áfengisneysla skerðir bæði rökhugsun og hegðun en er í sjálfu sér engin afsökun. Hins vegar er ég þannig gerður að allir eiga að fá sín tækifæri ef þeir fara út af sporinu. Ég vil fá botn í málið og innri sannfæring mun skera úr framhaldið hvað mig snertir,“ segir Jón Þór Þorvaldsson í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir