Þátturinn Hálf-(V)iddar var á dagskrá Útvarps Akraness þegar Skessuhorn bar að garði. Viðar Engilbertsson og Ingi Björn Róbertsson á tali við Sævar Frey Þráinsson bæjarstjóra.

Útvarp Akranes komið í loftið

Útsendingar Útvarps Akraness hófust í dag kl. 13:00 með þætti Ólafs Páls Gunnarssonar, Takið ykkur stöðu. Útsendingar standa þar til síðdegis á sunnudaginn með fjölbreyttri dagskrá þar sem er að finna allt frá sögulegu efni til tónlistar, barnaþátta, gríns og gamans.

Að vanda er það Sundfélag Akraness sem stendur fyrir útsendingum Útvarps Akraness. Hafa þær verið árviss viðburður í menningarlífi bæjarins frá árinu 1988, hvorki meira né minna. útvarpið fagnar því 30 ára afmæli um þessar mundir á 70 ára afmælisári sundfélagsins. Vakin er athygli á því að sérstakur afmælisþáttur sundfélagsins, Sund í 70 ár, verður á dagskrá á sunnudaginn kl. 12:30. Þar munu Sturlaugur Sturlaugsson, Ingunn Ríkharðsdóttir og Guðmundur Páll Jónsson, sem öll eru fyrrum formenn Sundfélags Akraness, fara yfir sögu félagsins.

Hægt er að hlusta á útsendingar Útvarps Akraness með því að stilal viðtækin á FM 95,0 eða á netinu með því að smella HÉR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir