Geir Konráð Theodórsson, uppfinningamaður í Borgarnesi, með hákarlanammið á erlendri grund, við Hvíta húsið í Bandaríkjunum. „Mögulega heimsins versta nammi fyrir mögulega heimsins versta forseta,“ voru orð sem fengu að fljúga í þann mund sem myndinni var smellt af. Ljósm. aðsend.

„Líklega versta nammi í heimi“

Geir Konráð Theodórsson, uppfinningamaður í Borgarnesi, hóf í byrjun mánaðarins sölu á hákarlanammi. Sælgætið er vegan og einkum hugsað fyrir erlenda ferðamenn og þá sem vilja bragða hákarl en neyta ekki dýraafurða. „Það virðist vera hálfgerð þjóðaríþrótt að troða hákarli upp í útlendinga,“ segir Geir í samtali við Skessuhorn en bætir því við að flest sem sælgætinu tengist sé gert í léttum dúr. Til marks um það stendur beinlínis utan á umbúðunum að í pakkanum sé að finna „líklega versta sælgæti í heimi“ eins og það er orðað.

„Þetta er fyrst og fremst grín, það er bara ekki hægt að taka hákarlanammi alvarlega,“ segir hann léttur í bragði. „Fólk virðist hafa gaman af þessu og því ekkert annað að gera en að fara með hugmyndina alla leið.“ En hvernig þykir uppfinningamanninum sjálfum „líklega versta nammi í heimi“ bragðast? „Ég er búinn að smakka það svo oft og svo margar útgáfur að ég er hættur að kippa mér upp við (ó)bragðið. Vesalings fjölskyldan mín er búin að smakka svo margar tilraunaútgáfur sem voru hver annarri verri,“ segir hann og hlær við.

Geir Konráð segir frá hákarlanamminu, tilurð þess og fleiru í léttu og skemmtilegu viðtali í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir