Ford árg. 1947 við hlið hinnar sögufrægu Soffíu II á sýningu í Brákarey. Ljósm. mm.

Býður sjötugan Ford hópferðabíl til sölu

Sæmundur Sigmundsson fv. sérleyfishafi í Borgarnesi hefur auglýst til sölu eitt af djásnum bílaflota síns. Það er Ford hópferðabíll árgerð 1947, en bíllinn tekur 28 manns í sæti. „Þetta er bíll sem á sér ekki langa eigendasögu. Það var Jón Húnfjörð, bróðir Guðmundar Jónassonar, sem keypti bílinn nýjan og lét byggja yfir hann hjá Agli Vilhjálmssyni árið 1947. Bíllinn kostaði kominn norður á Hvammstanga til Jóns áttatíu og eitthvað þúsund krónur. Jón gerði bílinn út frá Hvammstanga sem hópferðabíl. Ég náði því einu sinni að fara í samfloti með Jóni í hópferð austur á Egilsstaði þegar hann átti bílinn. Ég kaupi bílinn svo af Jóni árið ´84 eða 85 og hef átt hann síðan. Fleiri hafa eigendurnir ekki verið. Það er gaman að hlúa að og eiga svona bíla, ekki síst þegar eigendasagan er klár. Ég er hins vegar orðinn fullorðinn maður og ekki lætur maður grafa sig í svona tæki, yrði alltof stór gröf,“ segir Sæmundur í gamansömum tón í samtali við Skessuhorn.

„Þetta er eini bíll þessarar gerðar á landinu og gaman ef einhver vildi eignast hann. Áhugasamir geta kíkt á hann hjá mér, en ég er með hann hér inni á verkstæði í Brákarey. Það var einhver útlendingur sem vildi kaupa hann um daginn, en mér hugnast ekki að hann verði seldur úr landi,“ segir Sæmundur sem veitir nánari upplýsingar og tekur við tilboðum í síma 862-1373.

Sæmundur hefur átt rútuna frá því um miðjan níunda áratuginn, en þar áður var hún á Hvammstanga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Af með nagladekkin!

Lögreglan á Vesturlandi er ekki farin að kæra ökumenn fyrir að vera með nagladekk undir bifreiðum sínum. Ekki er byrjað... Lesa meira