Eyþór Ingi heldur hátíðartónleika á Vesturlandi

Stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson heldur hátíðartónleika um allt land á aðventunni. Hátíðartónleikaröðin hefst á Húsavík fyrsta sunnudag í aðventu en að þeim loknum leggur hann í ferðalag um Vesturland. Hann syngur í Akraneskirkju miðvikudaginn 5. desember, Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík 6. desember og Borgarneskirkju 7. desember.

Auk þess að vera landsþekktur söngvari hefur Eyþór getið sér gott orð sem eftirherma. Hátíðartónleikarnir eru létt, hugljúf og jólaleg kvöldstund þar sem Eyþór kemur fram einn síns liðs, með gítarinn, píanóið og röddina að vopni. „Ég hef lagt það í vana minn að reyna að hafa stemninguna létta og heimilislega, spjalla á milli laga og hafa þetta allt saman á léttu nótunum. Síðan er aldrei að vita nema ég bregði mér í líki einhverra landsþekktra einstaklinga,“ segir Eyþór í samtali við Skessuhorn.

Kórar úr heimabyggð verða sérstakir gestir á hátíðartónleikunum og munu taka lagið með Eyþóri. Karlakórinn Kári úr Grundarfirði mun syngja með honum í Klifi, Kammerkór Akraneskirkju á tónleikunum á Akranesi og Freyjukórinn úr Borgarfirði á tónleikunum í Borgarnesi. Eyþór segir alltaf skemmtilegt að syngja með nýjum kórum, heimsækja nýja staði og hitta fólk. „Þetta hafa verið ofboðslega skemmtilegir konsertar. Mér finnst gaman að ferðast um landið og koma við á fallegum stöðum hér og þar, stöðum sem maður hefur suma hverja aldrei heimsótt áður. Það er einstakt og gefandi. Eftir tónleikana gef ég mér jafnan tíma til að spjalla við fólk og þakka fyrir mig. Það er sérstaklega skemmtilegt. Suma gesti hittir maður ár eftir ár en aðra í fyrsta sinn,“ segir hann og hvetur fólk til að næla sér í miða sem fyrst. „Það er allt að því uppselt á tónleikana í Akraneskirkju en ennþá eru til miðar á tónleikana í Ólafsvík og Borgarnesi,“ segir Eyþór að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir