Vatnsskort í Hlíðarbæ má rekja til bilunar í dælu

Íbúar í Hlíðarbæ í Hvalfjarðarsveit gátu ekki hellt upp á kaffi í gærmorgun vegna þurrks í krönunum. Orsökin var þó ekki skortur á vatni heldur bilun í dælu sem dælir neysluvatni í geyma fyrir ofan Hlíðarbæ. Að sögn Marteins Njálssonar, umsjónarmanns fasteigna hjá Hvalfjarðarsveit, var brugðist við um leið og bilunarinnar varð vart. „Það er búið að laga þetta núna og við erum búin að fá rafvirkja til að skoða dæluna en það virtist ekkert vera að sem getur útskýrt af hverju dælan datt út,“ segir Marteinn.

Hvalfjarðarsveit hefur fest kaup á vöktunarbúnaði sem mun vonandi verða til þess að hægt verði að bregðast fyrr við ef dælan bilar. „Búnaðurinn er kominn en nú á bara eftir að setja hann upp. Þessi búnaður lætur mig þá vita í sérstöku öryggissímanúmeri ef það verður bilun svo ég geti brugðist strax við. En í Hlíðarbæ er neysluvatnið bara háð rafmagni vegna þess að við þurfum að notast við dælur. Og eins og með allan slíkan búnað getur alltaf orðið bilun eða rafmagn dottið út. Við getum því ekki tryggt að þetta komi ekki fyrir aftur en við getum orðið fljótari að bregðast við með nýja vöktunarbúnaðinum. Þá verður vonandi hægt að grípa inn í áður en íbúarnir verða varir við að vatnið sé horfið úr krönunum,“ segir Marteinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir