Ringómenn úr Borgarfirði með rósir og silfurverðlaun sín.

Tóku þátt í ringómóti í Mosfellsbæ

Sunnudaginn 4. nóvember fór fram að Varma í Mosfellsbæ keppni í ringói. Alls tóku fimm lið þátt í mótinu; eitt frá FaMos, eitt frá UMSB, eitt frá HSK, og tvö frá Glóðinni í Kópavogi. Þessi lið hafa hist þrisvar yfir tímabilið október til maí síðustu fjögur árin auk þess sem þau hafa verið þátttakendur á Landsmóti UMFÍ 50+ ásamt fleiri liðum. Leikar fóru þannig að HSK bar sigur úr býtum með 14 stig, UMSB varð í öðru sæti með 12 og í þriðja sæti varð annað Glóðarliðið með 8 stig.

Ringó er íþrótt sem leikin er á blakvelli, en í stað bolta er leikið með tveimur gúmmíhringjum. Í hverju liði eru 4 – 7 leikmenn, en fjórir inni á velli hverju sinni.  Að sögn Flemming Jessen hefur ekki gengið sem best að útbreiða þessa íþróttagrein, en þó verði ekki gefist upp við að reyna það. Þeir sem vilja kynningu á ringói geta sett sig í samband við Flemming Jessen flemmingj@símnet.is en hann er tilbúinn að koma og leiðbeina áhugasömum.  Æfingar eru í Íþróttahúsinu í Borgarnesi alla sunnudagsmorgna klukkan 10 og þangað eru allir velkomnir, konur sem karlar, ungir sem aldnir, að sögn Flemmings.

Líkar þetta

Fleiri fréttir