Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á lífríki árinnar eftir umhverfisslysið.

Lagt til að engin veiðinýting verði í Andakílsá árið 2019

Í minnisblaði frá Hafrannsóknastofnun, sem lagt var fram á fundi byggðaráðs Borgarbyggðar í síðustu viku, er lagt til að ekki verði byrjað að veiða í Andakílsá fyrr en sumarið 2020. Engin veiði var stunduð í ánni árin 2017 og 2018 vegna umhverfisslyss þegar inntakslón Andakílsvirkjunar var tæmt í ána í maí 2017. Áætlað er að um 8.000-10.000 tonn af botnseti hafi farið í ána með þeim afleiðingum að 30-60 sentímetra lag af botnseti lagðist yfir alla veiðistaði í efsta hluta árinnar. Botnsetið varð til þess að þörungar, smádýr og hryggleysingjar drápust í ánni og laxastofninn hefur átt erfitt uppdráttar sökum breytinga á búsvæði og fæðuskorts. Áætlað er að sleppa um 30.000 seiðum í Andakílsá árin 2019 og 2020 til að freista þess að koma laxastofninum á rétt strik að nýju. Allur árgangur úr 2016 hrygningunni drapst eftir aurburðinn en hins vegar fundust seiði úr árgangi 2017 í ánni, sem hafa „að einhverju leyti náð að lifa af aurburðinn og fæðuskort,“ eins og segir í minnisblaði sem Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur ritar. Minnisblaðinu er ætlað að varpa ljósi á ástand árinnar og stöðu laxastofnsins í ánni.

Í minnisblaðinu segir að botnsetið hafi nú hreinsast nokkuð af botni árinnar, sérstaklega á straumharðari stöðum í ánni. Fínna botnset er horfið af botninum og á sumum stöðum sést í upprunalegan botn árinnar. Enn á eftir að greina gögnin betur en í minnisblaðinu segir að búast megi við að búsvæðin gætu orðið sambærileg við það sem var fyrir aurflóðið eftir tvö til þrjú ár. „Ljóst er að endurheimt vatnalífs á búsvæðum Andakílsár hefur gerst tiltölulega hratt.“

Talið er að mest áhrif af aurburðinum komi fram í laxagöngu árin 2020 og sérstaklega 2021 þegar klakárgangur 2017 hefði átt að vera mest áberandi. Vonast er til að seiðasleppingar árin 2019 og 2020 vinni eitthvað á móti hruni stofnsins og styðji við endurreisn hans. Laxinn úr sleppingunum 2019 og 2020 ætti að skila sér sem smálax í ána árin 2020 og 2021. „Fyrirhugaðar sleppingar koma einmitt inn í það gat þar sem búsifjar vegna aurburðarins í fiskframleiðslu eru hvað mestar,“ segir í minnisblaðinu. Ennfremur er lagt til að veiðinýting í ánni hefjist ekki fyrr en 2020. „Þannig verði árið 2019 nýtt til að klára lagfæringar á veiðistöðum þannig að áin verði tilbúin til opnunar á ný fyrir veiðinýtingu sumarið 2020.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir