Byrjað er að reisa forsteyptar einingar í stækkun Grunnskóla Borgarness. Ljósm. borgarbyggd.is

Borgarbyggð hyggst fjárfesta fyrir rúma tvo milljarða

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær var framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir næstu fjögur ár lögð fram til fyrri umræðu og samþykkt að vísa henni til síðari umræðu. Samkvæmt tillögunni eru heildar fjárfestingar tímabilið 2019-2022 áætlaðar rúmir tveir milljarðar króna. Stærsta einstaka framkvæmdin er stækkun og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi sem nú er í gangi, en það verk er áætlað að kosti 680 milljónir króna á næstu fjórum árum til viðbótar við kostnað á yfirstandandi ári. Framkvæmdin kostar þannig í heild tæpan einn milljarð króna.  Nýbygging fyrir leikskóla á Kleppjárnsreykjum er áætluð að kosti 280 milljónir og gjaldfærist sá kostnaður að stærstum hluta á næsta ári, enda gert ráð fyrir að leikskólinn taki þar til starfa fyrir lok næsta árs. Þá er gert ráð fyrir að hefja á kjörtímabilinu framkvæmdir við undirbúning og byggingu nýs fjölnota íþróttahúss í Borgarnesi og er áætlað að til og með árinu 2022 verði búið að verja 450 milljónum króna í þá framkvæmd. Loks er gert ráð fyrir að gatnagerð, gangstéttar og stígagerð á tímabilinu kosti sveitarsjóð 250 milljónir króna. Ljósleiðaraverkefnið er áætlað að kosti sveitarsjóð um 260 milljónir króna.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun sem lögð var fyrir sveitarstjórn segir að gert sé ráð fyrir 400 milljóna króna lántöku á næsta ári miðað við þær framkvæmdir sem verða í gangi. „Ef farið verður hraðar í framkvæmdir við Grunnskólann í Borgarnesi gæti þurft að gera ráð fyrir hærri lántöku á næsta ári. Skuldastaða sveitarfélagsins er góð en skuldaviðmið sveitarfélagsins er 72% og fer batnandi. Með 400 milljóna króna lántöku mun skuldastaðan hækka tímabundið en er vel innan þess ramma sem sveitarfélaginu er fært,“ sagði í greinargerð sem Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður byggðarráðs lagði fram.

Finnst of geyst farið

Guðveig Eyglóardóttir oddviti minnihlutans í sveitarstjórn lagði fram bókun þar sem segir að í framlagðri fjárhagsáætlun sé gert ráð fyrir 1,6 milljarða króna lántöku á kjörtímabilinu til að fjármagna fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. „Fulltrúar Framsóknarflokksins vara við því að fara í svo umfangsmikla lántöku með tilheyrandi kostnaði. Sveitarstjórn ber að hafa í huga varnaðarorð sem fram hafa komið í fréttum um að blikur séu á lofti um kólnun í hagkerfinu og vaxtahækkanir. Þrátt fyrir uppsafnaða viðhalds- og fjárfestingarþörf telja fulltrúar Framsóknarflokksins óábyrgt að gera áætlanir um að fjárfesta fyrir ríflega 2 milljarða á tímabilinu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira