Birgir Sverrisson fyrirliði Skallagríms og Kristinn Guðbrandsson nýr þjálfari liðsins. Ljósm. Skallagrímur.

Kristinn tekur við þjálfun Skallagríms í fótboltanum

Tilkynnt var í gær að Kristinn Guðbrandsson tekur við þjálfun meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Skallagrími fyrir komandi tímabil. Mun hann hefja störf á næstu dögum og þjálfa liðið sem spilaði sig upp í þriðju deild í haust. Kristinn er 49 ára og hefur komið víða við sem þjálfari. Til að mynda hefur hann þjálfað 2. flokk hjá Keflavík og ÍA, verið aðstoðarþjálfari í meistaraflokki karla hjá Keflavík og Fylki og aðalþjálfari í meistaraflokksliðum karla hjá Víkingi Ólafsvík og Víði í Garði. Ásamt því tók hann við meistaraflokki kvenna hjá ÍA á miðju tímabili 2016.

Kristinn var sjálfur knattspyrnumaður á sínum tíma og spilaði lengst af með Keflavík við góðan orðstír, en hann lék m.a. fimm leiki með Skallagrími aldamótaárið 2000. Kristinn tekur við liðinu af Yngva Borgþórssyni. „Viljum við nota tækifærið og þakka Yngva kærlega fyrir sín störf og óskum honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir