Sumarið 2014 gaf Heimir Klemenzson út sína fyrstu sólóplötu. Hún bar nafnið Kalt. Ljósm. úr safni Skessuhorns/mm.

Stofna Minningarsjóð Heimis Klemenzsonar

Stofnaður hefur verið sjóður til minningar um Heimi Klemenzson tónlistarmann frá Dýrastöðum í Norðurárdal og á döfinni eru fyrstu tónleikarnir sem sjóðurinn stendur fyrir. Það eru vinir, ættingjar og samverkamenn Heimis sem vilja með stofnun sjóðsins halda minningu hans á lofti og sérstaklega elju hans og fagmennsku á tónlistarsviðinu. Ráðgert er að sjóðurinn verði sjálfseignarstofnun. Í undirbúningshópnum eru Viðar Guðmundsson, Eiður Ólason, Jónína Erna Arnardóttir, Jakob G Sigurðsson og Jómundur Rúnar Ingibjartsson.

Í tilkynningu frá undirbúningshópnum segir að afköst Heimis hafi verið mikil þótt árin yrðu ekki mörg. „Eftir Heimi Klemenzson liggur ótrúlega mikið af tónlistarefni, útgefið og óútgefið, að ógleymdum þeim ótal tónlistarviðburðum sem hann átti þátt í eða stóð fyrir. Píanó og orgel voru hans aðal hljóðfæri en hann samdi einnig mikið af tónlist. Hæfileikar Heimis lágu víðar en þegar kom að tónlistartengdum verkefnum þá var sá tími sem í þau fór aldrei talinn eftir. Hlutverk Minningarsjóðs Heimis Klemenzsonar verður að standa við bakið á ungu og efnilegu tónlistarfólki í Borgarfirði og heiðra á þann hátt minningu hans.“

Fyrstu tónleikarnir framundan

Fyrsta verkefni minningarsjóðsins verður að standa fyrir fjáröflunartónleikum sem verða í Reykholtskirkju í Borgarfirði föstudaginn 16. nóvember klukkan 20:30. Fjöldi tónlistarfólks leggur fram krafta sína á tónleikunum og gefur vinnu sína. Það eru: Karlakórinn Söngbræður, Soffía Björg, Emma Eyþórsdóttir, Agnes Björgvinsdóttir, Heiðmar og Jakob, Borgarfjarðardætur, Halli Reynis, Eyrún Margrét og Tinna, Viðar og Barbara, Ásta Marý, Uppsveitin og Jónína Erna.

Sjá nánar í auglýsingu sem meðal annars birtist í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir