Snæfellingar úr leik í bikarnum

Snæfell tók á móti Þór Þ. í fyrstu umferð Geysisbikars karla í körfuknattleik á laugardag. Gestirnir frá Þorlákshöfn, sem leika deild ofar en Snæfellingar, tóku öll völd á vellinum í öðrum leikhluta. Eftir það var leikurinn þeim auðveldur og þeir sigruðu að lokum með 90 stigum gegn 61.

Þór Þ. skoraði fyrstu stigin í leiknum en Snæfell fylgdi gestunum hvert fótmál. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-24 fyrir Þór. Snæfellingar fundu sig engan veginn í öðrum fjórðungi og skoruðu aðeins fimm stig allan leikhlutann. Á meðan stungu gestirnir af svo ekki varð aftur snúið. Staðan í hálfleik var 26-50 og aðeins formsatriði fyrir Þór Þ. að klára leikinn. Þeir juku forskotið lítið eitt í þriðja og fjórða leikhluta og unnu að lokum stórsigur, 61-90. Snæfellingar hafa þar með lokið þátttöku sinni í bikarkeppni karla að þessu sinni.

Dominykas Zupkauskas var atkvæðamestur í liði Snæfellinga með 14 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar. Deandre Mason skoraði tíu stig og tók ellefu fráköst og Ísak Örn Baldursson var með tíu stig einnig.

Halldór Garðar Hermannsson skoraði 23 stig og gaf fimm stoðsendingar fyrir gestina, Nikolas Tomsick var með ellefu stig og sex fráköst og þeir Emil Karel Einarsson og Davíð Arnar Ágústsson skoruðu tíu stig hvor.

Líkar þetta

Fleiri fréttir