Aundre Jackson var atkvæðamestur í liði Skallagríms. Ljósm. Skallagrímur.

Borgnesingar áfram í bikarnum

Skallagrímur sigraði 1. deildar liði Hattar, 74-97, þegar liðin mættust í fyrstu umferð Geysisbikars karla í körfuknattleik. Leikið var á Egilsstöðum á laugardag.

Skallagrímur hafði yfirhöndina í upphafi leiks og leiddu með nokkrum stigum framan af fyrsta leikhluta. En heimamenn gáfu Borgnesingum ekkert eftir, jöfnuðu metin og komust yfir áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 19-17. Hattarmenn leiddu áfram inn í annan fjórðung en nú voru það Skallagrímsmenn sem fengu það hlutverk að elta. Borgnesingar minnkuðu muninn í eitt stig um miðjan leikhlutann en voru tveimur stigum á eftir þegar flautað var til hálfleiks, 38-36.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Skallagrímsmenn náðu yfirhöndinni eftir miðjan þriðja leikhluta og góð rispa undir lok leikhlutans skilaði þeim átta stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 56-64. Heimamenn voru ekki alveg á tánum í upphafi fjórða leikhluta og Borgnesingar nýttu sér það til hins ýtrasta. Þeir skoruðu grimmt og voru fljótir að auka forskot sitt í 15 stig. Þeir bættu síðan við allt til leiksloka og unnu að lokum með 23 stigum, 74-97.

Aundre Jackson var stigahæstur í liði Skallagríms með 21 stig, en hann tók níu fráköst að auki og varði fjögur skot. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 16 stig og níu fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 16 stig og sex stoðsendingar, Kristófer Gíslason 14 stig og fimm fráköst og Matej Buovac skoraði ellefu stig og tók sex fráköst.

Charles Clark var atkvæðamestur í liði heimamanna með 27 stig og sjö fráköst og Ásmundur Hrafn Magnússon skoraði tíu stig.

Skallagrímsliðið hefur með sigrinum tryggt sér sæti í næstu umferð Geysisbikarsins. Leikið verður í 16 liða úrslitum bikarsins dagana 15.-17. desember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir