Prestssetrið á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Ljósm. mm.

Leggja til afnám prestakalls og búsetuskyldu í Saurbæ

Fyrir kirkjuþingi sem hófst í dag liggur tillaga um að Saurbæjarprestakall og prestssetrið í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd verði lagt niður þegar frá næstu mánaðamótum og búsetuskylda prests jafnframt aflögð á staðnum. Tillöguna flytur Stefán Jónsson kirkjuráðsmaður. Lagt er til að Saurbæjarsókn, Innra-Hólmssókn og Leirársókn verði sameinaðar Garðaprestakalli á Akranesi meðal annars til að starfsálag presta í sameinaðri sókn verði jafnað. Eins og greint var frá í Skessuhorni fyrr á þessu ári hafa staðið yfir viðgerðir á prestsbústaðnum í Saurbæ vegna myglu sem greinst hefur í húsinu sökum raka. Grunur lék á að viðgerðir á húsinu hefðu ekki komið í veg fyrir myglu og flutti sóknarprestur og fjölskylda ekki inn í húsið að nýju eftir viðgerðir og hafa haldið til í Kópavogi undanfarna mánuði. Í tillögu til kirkjuþings er einmitt meginástæða tillögunnar sögð vera kostnaðarsamar viðgerðir á prestsbústaðnum vegna raka og myglu sem ekki sjái fyrir endann á. Bætist sá kostnaður við húsaleigu í Kópavogi vegna tímabundinnar búsetu sóknarprests þar sem og ferðakostnaðar.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að á kirkjuþingi 2012 hafi verið lögð fram tillaga um sameiningu Garða- og Saurbæjarprestakalla. Var tillagan endurflutt á kirkjuþingi 2013, en dregin til baka. Á biskupafundi fyrr á þessu ári var lögð fram tillaga um sameiningu prestakallanna og lagt til að þrír prestar yrðu starfandi í sameinaðri sókn sem teldi hátt í átta þúsund íbúa. Gengið er út frá því í tillögunni sem liggur fyrir kirkjuþingi að hlutaðeigandi sóknarpresti verði áfram tryggt prestsembætti á því svæði sem Saurbæjarprestakall nær til, með því að fá skipun sem prestur í hinu stækkaða prestakalli.

Forkastanleg vinnubrögð

Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur ekki verið leitað samráðs við sóknarnefndir í Saurbæjarprestakalli vegna flutnings tillögunnar, né heldur hlutaðeigandi sóknarprest. Það staðfestir séra Kristinn Jens Sigurþórsson í viðtali við fréttavefinn ruv.is í gær. Hann segir að ekkert hafi verið rætt við hann um málið, ekki verið kallað eftir umsögnum um málið heima í héraði og málið ekki farið fyrir safnaðarnefndir og sóknarnefndir eins og hefðbundið er þegar um tillögur varðandi prestakallaskipan er að ræða. Vegna fréttar RUV hafa sóknarbörn í Saurbæjarprestakalli þegar tekið undir gagnrýni séra Kristins Jens á Þjóðkirkjuna vegna samráðsleysis, meðal annars Haraldur Benediktsson bóndi á Vestra-Reini og fyrsti þingmaður NV kjördæmis, sem skrifaði ítarlegan pistil um málið á Facebook síðu sína og sagði m.a.: „Vinnubrögð, aðferðafræði og framganga yfirvalda þjóðkirkjunnar eru í þessu máli forkastanleg.“

Sjá nánar pistil Haraldar hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira