Hleðslukassi á skúrvegg.

Hannaði og selur hleðslukassa fyrir rafmagnsbíla

Skagamaðurinn Guðlaugur Hjartarson vélfræðingur og rafvirki keypti í sumar tvinnbíl af Outlander gerð. „Mér fannst ekki nógu gott að hleðslutæki bílsins þyrfti alltaf að liggja fyrir framan bílskúrshurðina í öllum veðrum og fékk fljótlega leið á því að opna bílskúrinn til þess að hlaða bílinn,“ segir hann. „Ég ákvað því að hanna sjálfur hleðslukassa og lét smíða hann fyrir mig og hef komið honum í sölu,“ segir Guðlaugur í samtali við Skessuhorn.

Guðlaugur segist hafa leitað eftir sambærilegum kassa á markaðinum en ekki fundið. „Hleðslukassinn er því alíslensk hönnun og smíði, gerður úr plexigleri. Í kassanum er innstunga sem hleðslutækinu er stungið í samband við og tækið sjálft lagt í botninn á kassanum. Kassinn er læstur með lykli og niður úr honum kemur kapallinn sem tengist bílnum. Kaplinum er hægt að vefja utan um hleðslukassann. Kassinn er skrúfaður á vegg en einnig er hægt að kaupa staur til að hafa hleðslukassann frístandandi. Hleðslukassinn passar fyrir öll helstu hleðslutæki rafmagnsbíla,“ segir hann.

Hleðslukassinn kostar 34.900 krónur, en 39.900 ef keyptur er búnaður til að láta hann vera frístandandi. Hægt er að panta með að senda skilaboð á info@hledslukassi.is Nánari upplýsingar má finna á Facebook undir Hleðslukassi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir