Shequila Joseph átti prýðilegan leik í liði Borgnesinga. Ljósm. Skallagrímur.

Naumt tap Skallagrímskvenna

Skallagrímur tapaði naumlega fyrir KR á útivelli, 65-63, í sjöttu umferð Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik í gær.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en þegar leið á upphafsfjórðunginn náði KR undirtökunum og hafði sjö stiga forskot eftir leikhlutann, 19-12. Skallagrímskonur sneru dæminu við í öðrum fjórðungi, tóku forystuna um miðbik hans og leiddu með átta stigum í stöðunni, 21-29. En KR svaraði fyrir sig og minnkaði forskot Borgnesinga niður í eitt stig áður en hálfleiksflautan gall, 30-31.

Liðin fylgdust að í upphafi síðari hálfleiks áður en KR náði smá spretti á seinni hluta þriðja leikhluta og hafði sex stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 49-43. Skallagrímskonur jöfnuðu í 51-51 snemma í fjórða leikhluta en KR náði forystunni að nýju. Mikil barátta einkenndi lokamínútur leiksins en að lokum tókst KR að merja sigur, 65-63 en Skallagrímskonur sátu eftir með sárt ennið.

Shequila Joseph var atkvæðamest í liði Skallagríms með 21 stig og 15 fráköst. Maja Michalska skoraði 17 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Bryesha Blair var með tólf stig, sex fráköst, sex stolna bolta og fjögur varin skot.

Orla O‘Reilly skoraði 22 stig fyrir KR, tók tólf fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal sjö boltum. Kiana Johnson var með 13 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar, Perla Jóhannsdóttir ellefu stig og Unnur Tara Jónsdóttir tíu stig og fimm fráköst.

Skallagrímskonur sitja í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir sex umferðir, jafn mörg og næstu lið fyrir ofan. Næst mæta þær Íslandsmeisturum Hauka í Borgarnesi miðvikudaginn 7. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir