Ólafur Adolfsson lyfsali er að vonum sæll með lyktir málsins.

Apóteki Vesturlands dæmdar bætur í Hæstarétti

Lyfjum og heilsu gert að greiða sekt fyrir samkeppnisbrot

Hæstiréttur kvað í gær upp þann úrskurð að Lyf og heilsu skuli greiða Apóteki Vesturlands 4,5 milljón króna í bætur, auk vaxta, vegna tjóns af völdum samkeppnisbrota fyrrnefnda fyrirtækisins fyrir rúmum áratug síðan. Með dómi Hæstaréttar er snúið við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu og er Lyf og heilsa auk þess dæmd til greiðslu alls málskostnaðar, eða átta milljóna króna fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu dæma Lyfjum og heilsu í vil þar sem þeir töldu ekki sannað að Apótek Vesturlands hefði orðið fyrir fjártjóni vegna brota Lyfja og heilsu. Vildu þeir staðfesta sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur en auk þess dæma Apótek Vesturlands til greiðslu málskostnaðar.

Rót skaðabótamálsins má rekja allt til ársins 2010 þegar áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði að Lyf og heilsa hefði brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa nýtt sér markaðsráðandi stöðu sína til að hindra innkomu Apóteks Vesturlands á lyfsölumarkað á Akranesi árið 2007. Eftir opnun Apóteks Vesturlands á Akranesi brást Lyf og heilsa við með því að bjóða viðskiptavinum upp á afslætti sem einvörðungu stóðu til boða í verslun lyfsölufyrirtækisins á Akranesi en ekki í öðrum 24 verslunum lyfsölukeðjunnar. Þetta hafi fyrirtækið m.a. gert með útgáfu vildarkorta og með svonefndum baráttuafsláttum. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð árið 2012. Í kjölfarið krafði Apótek Vesturlands Lyf og heilsu um rúmar átján milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem það hefði orðið fyrir vegna samkeppnisbrotanna. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Lyf og heilsu af kröfunni í janúar í fyrra en meirihluti dómara í Hæstarétti, eins og fyrr segir, snéri þeim úrskurði við og dæmdi Apóteki Vesturlands í vil.

Löng vegferð að baki

Ólafur Adolfsson lyfsali rekur Apótek Vesturlands. Hann var að vonum sæll með lyktir málsins þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið. Hann segir langa vegferð að baki en málið teygi anga sína tólf ár aftur í tímann, eða allt til þess tíma sem hann opnaði apótek á Akranesi sumarið 2007. „Nú eru níu ár síðan úrskurðarnefnd samkeppnismála kvað upp þann úrskurð að á fyrirtæki mínu hafi verið brotið með ólögmætum samkeppnishindrunum. Það er nú búið að taka níu ár að kalla fram þessa niðurstöðu, sem mér finnst að sjálfsögðu alltof langur tími. En það breytir ekki því að ég er ánægður með lyktir málsins og hefði í raun ekki getað fengið ánægjulegri afmælisgjöf,“ sagði Ólafur sem einmitt fagnaði 51 árs afmæli sínu sama dag og dómur Hæstaréttar féll. „Það sem þessi dómur ætti að kenna okkur er að fagna samkeppni, en hún verður að sjálfsögðu alltaf að vera á heiðarlegum nótum,“ segir Ólafur Adolfsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir