Rekstrarafkoma landsbyggðarhótela versnar til muna

Mikil umræða hefur verið um erfitt rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og því haldið fram að afkoma þeirra hafi versnað á síðustu misserum. Til að kanna hvort þessi staðhæfing ætti við rök að styðjast fól Ferðamálastofa endurskoðunarfyrirtækinu KPMG að gera úttekt á rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Niðurstaðan hefur nú verið kynnt í viðamikilli skýrslu og á opnum fundi í morgun. Fram kemur að ebidta framlegð hótela á landsbyggðinni var almennt mun lakari en á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Hún var í raun neikvæð á landsbyggðinni í öllum landshlutum, en jákvæð á höfuðborgarsvæðinu. Afkoma fyrirtækja virðist versna eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Ebidta framlegð fyrstu 6 mánuði 2018 var neikvæð á Suðurlandi um 1% af veltu, neikvæð um 6,1% af veltu á Vesturlandi, en á Norðurlandi var hún neikvæð um 20,4%. Virðist þetta staðfesta þá skoðun að ferðamenn dvelji skemur á landinu, gisti mest á höfuðborgarsvæðinu en fari síður út á land og því minna sem fjær dregur höfuðborginni.

Fram kemur í skýrslu KPMG að laun sem hlutfall af tekjum hafa hækkað mikið og eru þau að jafnaði hærra hlutfall af tekjum hjá hótelum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Laun sem hlutfall af tekjum námu 46,9% hjá hótelum á landsbyggðinni 2017 en þetta hlutfall var 38,7% á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverð á herbergi og herbergjanýting er mun lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Könnun ferðamálastofu á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu

Líkar þetta

Fleiri fréttir