Leið Þ-H um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð. Horft frá Reykjanesi. Teikning: Vegagerðin.

Vegagerðin mælir áfram með leið Þ-H um Reykhólasveit

  • Telur Þ-H leið ódýrari kost, öruggari og styttri

Vegagerðin hefur birt niðurstöðu frumathugunar á vænleika þess að leggja Vestfjarðaveg um Reykhóla og með brú yfir utanverðan Þorskafjörð, en að öðrum kosti að fara svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg. „Niðurstaða könnunar Vegagerðarinnar á svokallaðri R-leið um Reykjanes og utanverðan Þorskafjörð er að hún er töluvert dýrari en Þ-H leiðin sem Vegagerðin mælir með. Umferðaröryggi er minna á leið R, sú leið er lengri en Þ-H og sú leið, eða leið svipuð henni, myndi tefja framkvæmdir um 2-3 ár, sé horft framhjá hugsanlegum kærumálum á báðum leiðum,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Í skýrslu Vegagerðarinnar er leið R tekin til skoðunar og gerð grein fyrir þeim breytingum sem stofnunin telur nauðsynlegt að gera til að uppfylltar séu þær kröfur sem gilda um hönnun nýrra stofnvega á vegakerfi Íslands. „Er sú leið nefnd leið A3 til aðgreiningar frá leið Multiconsult [R-leið, innsk. blm]. Í skýrslunni er jafnframt að finna samanburð leiðar A3 og leiða Þ-H og D2 þar sem tekið er á helstu þáttum sem skipta máli varðandi ákvörðun um leiðarval. Afstaða Vegagerðarinnar eftir að hafa unnið þessa skýrslu er sú að leið Þ-H sé besta leiðin til bættra vegasamganga á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Rökin fyrir því segja starfsmenn Vegagerðarinnar helst eftirfarandi í samanburði við leið A3:

  • Umferðaröryggi er að öllum líkindum minna á leið A3.
  • Leið A3 er töluvert lengri en leið Þ-H eða 4,7 km.
  • Kostnaður við leið A3 er verulega meiri en við leið Þ-H sem nemur tæpum 4 milljörðum kr.
  • Ljóst er að umhverfisáhrif eru töluverð á leið A3. Kanna þarf matsskyldu og líklegt að gerð verði krafa um umhverfismat.
  • Efnisþörf fyrir leið A3 er meiri og opna þarf fleiri námur.
  • Verði farin leið A3 mun það líklega tefja framkvæmdir um tvö til þrjú ár.

Skýrsluna í heild sinni og teikningar má finna á vef Vegagerðarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir