Fannar Jökulsson löndunarmaður hjá Fiskmarkaði Íslands með tvær vænar ýsur sem komu að landi í Ólafsvík í lok síðasta mánaðar, en stóra ýsan hefur verið að seljast á 380 krónur kílóið á mörkuðum. Ljósm. af.

Hátt fiskverð vegur að hluta upp gæftaleysi

Sjómenn eru ánægðir þessa dagana vegna góðs fiskverðs á mörkuðum, en hins vegar hefur verið talsverð ótíð á köflum í haust og lítið verið róið. Gott fiskverð hefur hins vegar bætt það að mestu leyti upp. Þessu til marks má nefna að steinbítsverð hefur í haust farið yfir 500 krónur fyrir kílóið en var í apríl allt niður í um 100 krónur fyrir slægðan fisk.

Andri Steinn Benediktsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Snæfellsbæjar segir í samtali við Skessuhorn að lítið framboð hefur verið að undanförnu vegna mikillar ótíðar og fór átta kíló fiskur og þyngri einn daginn í 600 krónur sem hlýtur að vera með hæsta verði sem hefur fengist fyrir fisk í seinni tíð. Fiskverð hefur hækkað í ár miðað við síðasta sumar. Meðalverð í ár er 302 krónur en var í fyrra sumar 290 krónur. „En ég held að verðið verði ekki svona hátt þegar líður á vertíðina og meira magn kemur inn á fiskmarkaðina, en bræla hefur verið um allt land svo kaupendur keppast við að kaupa fisk til þess að geta staðið við pantarnir sem þeir hafa gert,“ segir Andri.

Aron Baldursson framkvæmdastjóri  hjá Fiskmarkaði Íslands tekur í sama streng og bætir þó við að veiking krónurnar hefði hjálpað til með gott fiskverð. „Ég er þó bjartsýnn á komandi vertíð,“ segir Aron. „Vonir standa til að fiskverð verði betra en á síðustu vertíð en lækki þó eitthvað miðað við þau verð sem eru í gangi í dag. Vertíðarfiskur frá Noregi kemur þá inn á erlenda markaði. En það er gríðarleg eftirspurn eftir fiski nú og lítið framboð vegna ótíðar,“ sagði Aron.

Líkar þetta

Fleiri fréttir