Eyjólfur Ásberg Halldórsson var atkvæðamestur Skallagrímsmanna í leiknum. Ljósm. úr safni/ kgk.

Fyrsti sigur Skallagríms í hús

Skallagrímsmenn eru komnir á blað í Domino‘s deild karla eftir góðan sigur á liði Grindvíkinga, 93-88 í gær. Leikið var í Borgarnesi og var þetta fyrsti heimaleikur Skallagríms í deildinni í vetur.

Skallagrímur hóf leikinn af krafti. Liðið lét finna fyrir sér í vörninni og góð stemning einkenndi leik liðsins. Þeir voru enda sterkari í fyrsta leikhluta og leiddu með sex stigum að honum loknum, 24-18. Grindvíkingar bættu leik sinn í öðrum fjórðungi og náðu að minnka muninn í eitt stig, 29-28. En Skallagrímur var áfram sterkara lið vallarins og fór með fjögurra stiga forystu inn í hléið, 43-39.

Skallagrímsliðið fór vel af stað í síðari hálfleik. Liðið var ákveðið, vel stemmt og lék við hvern sinn fingur á meðan gestirnir áttu erfitt uppdráttar. Þegar sex mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta voru Borgnesingar komnir með álitlega forystu og þeir leiddu með 16 stigum fyrir lokafjórðunginn, 74-58. Grindvíkingar voru hins vegar grimmari í fjórða leikhluta og náðu hægt en örugglega að hleypa mikilli spennu í leikinn á lokamínútunum. Þegar 20 sekúndur lifðu leiks voru Grindvíkingar búnir að minnka forskot Skallagríms niður í eitt stig, 89-88. En tíminn var of lítill fyrir gestina og Borgnesingar kláruðu leikinn af vítalínunni á lokasekúndunum og sigra með 93 stigum gegn 88.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson var atkvæðamestur leikmanna Skallagríms með 23 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar. Aundre Jackson var með 22 stig og níu fráköst, Bjarni Guðmann Jónsson 14 stig og níu fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 12 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar og Matej Buovac skoraði ellefu stig.

Í liði gestanna var Terrel Vinson með 27 stig og tíu fráköst, Jordi Kuiper 18 stig og ellefu fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 18 stig og sex fráköst og Ólafur Ólafsson tíu stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar.

Skallagrímur hefur tvö stig eftir fyrstu tvo leiki vetrarins og situr í sjöunda sæti deildarinnar þegar þessi orð eru rituð. Næst leika Borgnesingar föstudaginn 19. október næstkomandi þegar þeir heimsækja Stjörnuna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir