Frumvarp ráðherra svar við ákalli Vestfirðinga

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. „Frumvarpinu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að í þeim tilvikum er rekstrarleyfi er fellt úr gildi geti ráðherra að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða. Þá kemur fram í frumvarpinu að ráðherra geti sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo tilgangur leyfisins náist, m.a. um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða ef um meðferð máls fyrir dómstólum er að ræða.

„Fiskeldi er nú þegar burðarás í vestfirsku atvinnulífi“

Á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið var fyrir skömmu var einróma samþykkt harðorð ályktun af kjörnum fulltrúum allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Tengist hún framtíð fiskeldis í sjó. „Það er áfall fyrir Vestfirði og þjóðarbúið í heild að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað beiðni fyrirtækjanna Arnarlax (Fjarðarlax) og Arctic Fish (Arctic Sea Farm) um frestun réttaráhrifa og fellt úr gildi rekstrarleyfi fyrirtækja í fullum rekstri. Vestfirðingar eru reiðir og sætta sig ekki lengur við við úrræðaleysi og getuleysi kerfisins. Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn grípi tafarlaust inn í þá atburðarrás sem úrskurður nefndarinnar hefur sett af stað og tryggi áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra fiskeldisfyrirtækja sem byggt hafa upp starfsemi sína á Vestfjörðum. Störf og lífsafkoma 300 manns er í bráðri hættu. Fiskeldi á Vestfjörðum er nú þegar orðin burðarás í samfélaginu og mun þessi atburðarás, ef ekkert verður að gert, hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Vestfirði og samfélagið þar til frambúðar.“

Frumvarp ráðherra sem nú hefur verið lagt fram svarar því ákalli sem fram kemur í ályktun Vestfirðinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir