Sigrún Sjöfn Ámundadóttir átti góðan leik þegar Skallagrímur sigraði Breiðablik. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Sigur eftir æsispennandi lokamínútur

Skallagrímskonur kræktu í fyrstu stig vetrarins í Domino‘s deild kvenna með naumum sigri á Breiðabliki í Borgarnesi í gær, 76-75.

Borgnesingar höfðu undirtökin í upphafi leiks, komust í 11-2 og höfðu átta stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta, 25-17. Bæði lið léku þéttan varnarleik í öðrum fjórðungi og stigamunurinn breyttist lítið. Þegar flautað var til hálfleiks leiddi Skallagrímur með 43 stigum gegn 34.

Skallagrímskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og komust í 54-36 á fyrstu þremur mínútum hálfleiksins. En Breiðablik náði að minnka muninn, hægt en örugglega, niður í átta stig fyrir lokafjórðunginn, 64-56. Það var þá sem spenna tók að færast í leikinn. Breiðablik náði góðum kafla snemma í fjórða leikhluta og tókst að jafna metin í 69-69 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Skallagrímskonur skoruðu næstu stig og höfðu fjögurra stiga forystu þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Breiðablik setti niður þriggja stiga skot og minnkaði muninn í eitt stig. Skallagrímskonur misstu síðan boltann þegar 18 sekúndur voru eftir. Breiðablik fékk gullið tækifæri til að stela sigrinum á lokasekúndunum. Fyrst brenndu þær af skoti í teignum en tóku sóknarfrákastið. Upp úr því náðu þær annarri tilraun en Skallagrímskonur skotið frá og tryggðu sér þannig dramatískan eins stigs sigur, 76-75.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir átti afar góðan leik í liði Skallagríms. Hún skoraði 24 stig, tók ellefu fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum þrisvar. Shequila Joseph skoraði 20 stig, tók ellefu fráköst og varði fimm skot og Bryesha Blair skoraði 14 stig.

Í liði gestanna var Kelly Faris atkvæðamest með 28 stig, tíu fráköst og þrjú varin skot. Björk Gunnarsdóttir var með 15 stig og sjö stoðsendingar og Ísabella Ósk Sigurðardóttir 14 stig og níu fráköst.

Skallagrímskonur hafa tvö stig eftir fyrstu tvo leiki vetrarins og sitja sem stendur í sjötta sæti deildarinnar. Næst leika þær á miðvikudag, 17. október, þegar þær heimsækja Keflavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir