Fjölbreytt úrval í boði á fyrstu REKO afhendingunni

Laugardaginn 13. október fer fram fyrsta afhending hópsins „REKO Vesturland“ sem um leið er fyrsta REKO afhendingin hér á landi. Í Skessuhorni nýverið var sagt frá verkefninu sem nú er formlega farið í gang. Vörur sem pantaðar hafa verið verða afhentar kaupendum við bílaplan Krónunnar á Akranesi milli kl. 11 og 12. Að sögn aðstandenda REKO verður í boði fjölbreytt úrval frá fjölmörgum bændum og smáframleiðendum víðsvegar af suðvestanverðu landinu.

Meðal þess sem er hægt að panta og fá afhent á laugardaginn er birkireykt bleikja, tvíreykt hrákæfa, kanínukjöt, fersk jarðarber, kofareykt bjúgu, nautakjöt, kimchi, handgerður brjóstsykur, alikálfakjöt, grafinn geitavöðvi, mintusulta, súrkál, jarðarberjasíróp, lambakjöt, kindahakk, sirlon nautasteik, nautahamborgarar, landnámshænuegg, jarðarberjasulta, heimasætu salza, svínakjöt, útbeinaðað fyllt lambalæri og birkireyktur bláberjavöðvi.

Viðskiptin fara þannig fram að áhugasamir kaupendur skrá sig í næsta afhendingahóp á REKO Vesturland á Facebook. Fara þarf inn í viðburðinn og skoða færslur frá framleiðendum sem bjóða matvörur til sölu, setja í athugasemd við hverja færslu hvað þeir vilji kaupa eða senda skilaboð beint á framleiðanda. Hver framleiðandi sér síðan um að innheimta greiðslur fyrir sínar vörur fyrir afhendingardaginn. Loks þarf kaupandinn að sækja vörurnar sem búið er að panta og greiða fyrir á fyrrgreindum tíma.

Þeir sem hafa spurningar um REKO Vesturland eru hvattir til að hafa samband við Hlédísi Sveinsdóttur í síma 892-1780. Hún verður einnig stödd á Lesbókinni Akranesi með tölvu milli kl. 17 og 18 miðvikudaginn 10. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir