Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, heimsækir á næstunni grunnskólabörn á Vesturlandi.

Námskeið fyrir grunnskólabörn á Vesturlandi í skapandi skrifum

Menntamálastofnun og Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) bjóða upp á námskeið í skapandi skrifum í völdum skólum á Vesturlandi. Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, stýrir námskeiðinu sem er ætlað til að auka áhuga barna á lestri bóka og ritun. Allir skólar á Vesturlandi sem var boðið var upp á námskeiðið hafa þegið boðið.

Bergrún Íris skrifaði metsölubókina „Langelstur í bekknum“ og fleiri vinsælar barnabækur. Í tilkynningu frá Menntamálastofnun segir að hún muni taka börnin með sér í ferðalag um ævintýraheima sagnagerðar og ritunar. Kafað verður í hugmyndaleit, persónusköpun og hvernig beinagrind að sögu verður til. Að námskeiðinu loknu skilur hún eftir vandaðar æfingar sem kennarar geta nýtt í skólastarfinu. Bergrún Íris verður á ferðinni á Vesturlandi dagana 8.-11. október og heimsækir þá alla skóla á Vesturlandi utan Akraness, en verið er að skipuleggja heimsókn þangað.

Námskeiðið er miðað að börnum á miðstigi grunnskóla. Ekkert er því til fyrirstöðu að börn á yngsta og elsta stigi njóti góðs af námskeiðinu í fámennari skólum. Menntamálastofnun hefur áður boðið upp á svipuð námskeið í samstarfi við SÍUNG. Til dæmis var Gunnar Helgason með fræðslu á Austurlandi í mars og Þorgrímur Þráinsson með námskeið í skapandi skrifum fyrir skóla á Vestfjörðum í september síðastliðnum.

Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir, læsisráðgjafi hjá menntamálastofnun og einn skipuleggjenda námskeiðsins, segir að reynslan af námskeiðunum sé mjög góð. „Kennarar og aðrir sem sinna störfum á skólabókasöfnum tala um mikla aukningu á útláni bóka eftir að rithöfundar hafa verið í heimsókn.“ Niðurstaðan sé því að námskeið af þessu tagi eða heimsóknir rithöfunda hafi jákvæð áhrif á lestraráhuga nemenda. „En þetta segir okkur líka hversu mikilvægt það er að sveitarfélögin búi vel að bókakosti bæði skóla- og almenningsbókasafna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir