Fjöldi kvenna lagði sitt af mörkum í Grundarfirði. Á myndinni eru í efri f.v. Sævör Þorvarðardóttir, Pauline Haftka og Jónína Kristjánsdóttir,. Í neðri röð: Kristín Árnadóttir, Björg Guðmundsdóttir, Hildur Sæmundsdóttir og Steinunn Hansdóttir. Ljósm. Sverrir Karlsson.

Senda fatapakka til Hvíta-Rússlands

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Grundarfirði luku nýverið við að pakka gjöfum til Hvíta-Rússlands. „Þetta er tíunda árið sem við erum að búa til barnaföt til að senda út. Við vinnum þau mest upp úr eldri fatnaði og efni sem við höfum fengið frá ýmsum stöðum,“ segir Hildur Sæmundsdóttir, fyrrum ljósmóðir og einn sjálfboðaliðanna í samtali við Skessuhorn. Í samhentu átaki prjóna og sauma konur í Grundarfirði fyrir bágstödd börn í Hvíta-Rússlandi. „Það voru um tuttugu konur sem prjónuðu og saumuðu hér á Grundarfirði. Allt í allt eru sendir 2000 pakkar frá RKÍ til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi sem dreifir þeim svo til bágstaddra þar úti,“ segir Hildur. Innihald hvers pakka er eitt teppi, handklæði, stykki sem er notað sem bleyja, ein þykk peysa og önnur þunn, tvær samfellur, eitt par af buxum, húfa og tvö pör af þykkum sokkum. „Fólk í Hvíta-Rússlandi er ánægt með  sendingarnar. Það er mikil fátækt einkum fyrir utan borgirnar,“ segir Hildur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir