Alltaf logar ljós hjá Einari Darra á hillu í stofunni.

„Hann fékk aldrei tækifæri til að misstíga sig“

Í Skessuhorni sem kom út í dag er opnuviðtal við Báru Tómasdóttur og Andreu Ýr Arnarsdóttur, móður og systur Einars Darra Óskarssonar. Þær ræða um Einar, minningarsjóðinn og þjóðarátakið „Ég á bara eitt líf“ og vandamálið sem misnotkun ungs fólks á lyfseðilsskyldum lyfjum er orðið.

Neonbleiki liturinn sem einkennir Minningarsjóð Einars Darra hefur farið um allt land á örskömmum tíma. Einar Darri Óskarsson lést í vor átján ára í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit vegna lyfjaeitrunar. Minningarsjóðurinn, sem stendur fyrir og styrkir þjóðarátak gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og annarra fíkniefna hefur slagorðið „Ég á bara eitt líf“ kemur til af mikilli sorg fjölskyldu og vina Einars. Fjölskylda og vinir bera honum öll góða sögu, hann var góður námsmaður, umhyggjusamur vinur og góður starfskraftur. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hann fannst látinn í rúmi sínu að morgni föstudagsins 25. maí vegna lyfjaeitrunar. Fjölskylda hans hafði enga hugmynd um að Einar hefði verið farinn að misnota lyfseðilsskyld lyf, hvað þá að hann væri farinn að daðra við fíknina. Aðdragandinn að dauða hans var mjög stuttur og skyldi eftir fjölskyldu í sárum og vini í losti. En dauði Einars Darra hefur í för með sér vitundarvakningu, því fjölskylda hans og vinir hafa starfað ötullega að því að koma á fót þjóðarátaki, sem byrjaði sem minningarsjóður, til að hjálpa ungu fólki í fíknivanda. Tilgangurinn með sjóðnum er að varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem  misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er á Íslandi og byggja upp forvarnir gegn þeim. Mæðgurnar Bára Tómasdóttir og Andrea Ýr Arnarsdóttir ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum og vinum Einars Darra eru drifkrafturinn á bak við sjóðinn og þjóðarátakið og eru ekki hræddar við að nefna orðið faraldur í tengslum við misnotkun ungmenna á lyfseðilsskyldum lyfjum.

Sjá ítarlegt viðtal í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir