Liðið ásamt Sigurði og Elinbergi þjálfurum. Ljósm. kfia.is

ÍA Íslandsmeistari í 2. flokki karla

Strákarnir í öðrum flokki í knattspyrnu hjá ÍA urðu í gær Íslandsmeistarar eftir frækinn 7:0 sigur gegn Fylki í Árbænum. Liðið er skipað piltum sem fæddir eru árabilið 2000-2002. Með ÍA spiluðu einnig í sumar drengir úr Kára og Skallagrími í Borgarnesi. Þetta er fyrsti Íslandsmeistarasigur liðsins í 13 ár. Þjálfari er Sigurður Jónsson og honum til aðstoðar Elinbergur Sveinsson. Mörk Skagamanna gegn Fylki skoruðu Ísak Bergmann (2) og Bjarki Steinn, Ólafur Karel, Stefán Ómar, Sigurður Hrannar og Þór Llorens með sitt markið hver. ÍA endaði þannig í efsta sæti A-riðils með 42 stig eða jafnmörg og KR en markahlutfallið var heilum 12 mörkum Skagamönnum í vil. Strákarnir skoruðu 63 mörk í sumar eða þrjú og hálft mark að jafnaði í leik svo sóknarleikur liðsins var bráðgóður. Þór Llorens Þórðarson og Stefán Ómar Magnússon gerðu tíu mörk í sumar og Ísak Bergmann Jóhannesson 8.

Líkar þetta

Fleiri fréttir