Helga Jónsdóttir leysir Bjarna af sem forstjóri OR

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum síðastliðið miðvikudagskvöld að ráða Helgu Jónsdóttur í starf forstjóra næstu tvo mánuði. Bjarni Bjarnason forstjóri OR mun stíga til hliðar meðan fram fer óháð úttekt á vinnustaðarmenningu og málefnum tiltekinna starfsmanna sem verið hafa til umfjöllunar. Helga hefur gegnt ýmsum opinberum stjórnunarstörfum um tíðina; verið borgarritari, ráðuneytisstjóri, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og nú síðast stjórnarmaður í ESA, Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel. Hún lét af því starfi í lok árs 2017. Helga var varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2010-2011.

Fyrir fundi stjórnar lá einnig tillaga um að ráðast í óháða úttekt á vinnustaðarmenningu hjá OR og tilteknum starfsmannamálum sem verið hafa til umræðu. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun vinna úttektina með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði. Var Brynhildi Davíðsdóttur stjórnarformanni falið að ganga frá endanlegu samkomulagi þar um. Úttektin verður tvíþætt; annars vegar á vinnustaðarmenningu og hinsvegar á þeim starfsmannamálum sem verið hafa í umræðu. Niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir innan þeirra tveggja mánaða sem settur forstjóri er ráðinn til.

Líkar þetta

Fleiri fréttir