Tillaga starfshópsins að svæðalokunum á grunnslóð (blá svæði) og gildandi reglugerðir vegna lokana svæða fyrir veiðum með línu og/eða handfærum (gul svæði).

Tillögur um lokun fengsælustu miða vestlenskra smábáta

  • Yrði náðarhögg fyrir smábátaútgerð einkum við Faxaflóa en slæmt fyrir Breiðafjarðarsvæðið

 

Starfshópur sem þáverandi sjávarútvegsráðherra skipaði fyrir þremur árum og fjalla átti um; „faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiði- og verndunarsvæða á Íslandsmiðum,“ hefur skilað lokaskýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í skipunarbréfi starfshópsins kom fram að ákveðið hafi verið að vinnuhópurinn væri með aðild Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og ráðuneytisins. Þá skyldi leita samráðs og samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Skýrslan er mikil að vöxtum og kennir þar margra grasa. Meðal annars leggur starfshópurinn til að óheimilt verði næstu tvö árin að stunda handfæraveiðar vestur af Akranesi á tímabilinu frá 1. maí – 31. júlí sem og í öllum Hvalfirði í janúar til mars. Á Búðagrunni, svæði út af Búlandshöfða og svæðið við Breka, verður óheimilt að veiða með handfærum í sjö mánuði frá 1. júlí – 31. janúar. Í stuttu máli má segja að þar með sé verið að kollvarpa öllum framtíðaráformum smábátaeigenda við vestanvert landið, nái tillögurnar fram að ganga.

Endalok síðustu útgerðar á Akranesi

„Ef þessar tillögur verða að reglugerð eða lögum þýðir það ekkert annað en endalok handfæraveiða frá Akranesi og hefur auk þess verulega áhrif á veiðar smærri báta á Snæfellsnesi og Reykjaví, svo ég nefni dæmi,“ sagði Jóhannes Simonsen formaður Sæljóns á Akranesi í samtali við Skessuhorn. „Þarna er starfshópurinn einfaldlega að leggja til lokun þeirra fiskimiða sem við smábátasjómenn á Akranesi höfum getað sótt, allt frá Þormóðsskeri til Arnarstapa. Þá yrði Hvalfjörður lokaður þrjá fyrstu mánuði ársins sem er náttúrlega alveg galið. Með þessum tillögum yrði endanlega úti um þá litlu útgerð sem enn er stunduð frá Akranesi. Þetta yrði algjört rothögg fyrir strandveiðar og almennt línu- og handfæraveiðar. Jafnframt yrði alveg útséð með möguleika á rekstri fiskmarkaðar frá Akranesi eftir þetta. Það er því allt slæmt við þessar tillögur og í raun rökleysa,“ segir Jóhannes.

Hann segir að verið sé að leggja til lokun svæða sem þekkt eru fyrir góðan og stóran fisk en skýrsluhöfundar segja tíðar skyndilokanir hafa verið á svæðinu vegna smáfisks í afla. Jóhannes segir eina litla lokun hafa verið á árinu vegna þess. „Það er fjarstæða þetta með smáfiskinn og nægir að benda á afla smábátasjómanna hér á svæðinu síðastliðið sumar í því samhengi. Hér var stór og verðmætur fiskur að fara í gegnum markaðinn á Akranesi og það geta menn séð ef þeir vilja kynna sér málið. Engum dylst að þarna er starfshópur ráðherra að koma fram með fyrirfram pantaða niðurstöðu fyrir stórútgerðir sem geta nú veitt upp í harða landi. Þetta er öfugmælavísa því allir vita að dragnótarveiðar eru ekki umhverfisvænar, en það eru hins vegar línu- og handfæraveiðar alltaf. Ef fiskurinn er smár, færa handfærasjómenn sig einfaldlega til. Smáfiskur í nót eða öðrum stórvirkum veiðarfærum er hins vegar dauður þegar hann er dreginn um borð,“ segir Jóhannes.

Rangt með farið í skýrslunni

Á fundi sem Landssamband smábátasjómanna hélt með fulltrúum starfshópsins í sjávarútvegsráðuneytinu í gær  mótmælti Örvar Már Marteinsson formaður Snæfells því harðlega að þessar svæðalokanir hafi verið að tillögu Snæfells eins og haldið er fram í skýrslunni. Í umsögn Snæfells hafi eftirfarandi komið fram: „Varðandi handfæraveiðar mótmælir stjórn Snæfells hugmyndum um svæðalokanir fyrir handfæraveiðum. Óþarft er að loka svæðum fyrir veiðarfærum sem auðvelt er að taka upp og færa sig um set í stærri fisk. Stjórn Snæfells leggur til að tekin verði upp persónutengd viðurlög við smáfiskadrápi á handfæraveiðum, tengd skipstjóra báts. Til dæmis sektir.“

Aðför að smábátaútgerð

Komi þessar tillögur til framkvæmar yrði það endalok þessa útgerðarforms við Faxaflóa, svo alvarlegt er málið. Þar með talið er smábátaútgerð frá Reykjavík, Akranesi og Borgarnesi. Formenn smábátasjómanna á þessum stöðum eru einu máli um það. „Það er sameiginleg skoðun undirritaðra að lokanir veiðisvæða vegna handfæraveiða eigi aldrei rétt á sér.  Handfæraveiðar eru ekki og geta ekki orðið vandamál sem vinnur gegn uppbyggingu fiskistofna á Íslandsmiðum,“ segja smáútgerðarmenn í Reykjavík, Akranesi og Snæfellsnesi. Á fundi fulltrúa smábátaeigenda með fulltrúm Hafró var þess krafist að lokaskýrslan yrði leiðrétt þannig að sjómenn væru ekki hafðir fyrir því að leggja til bann við veiðum með handfærum, þvert gegn sínum vilja. Í umræðum kom fram að væri ætlunin að hrinda í framkvæmd tillögum starfshópsins yrði haft náið samráð við hagsmunaaðila um útfærslu og tæknileg atriði.

Skýrsla starfshóps um endurskoðun á veiðarfærum, veiði- og verndunarsvæðum

Líkar þetta

Fleiri fréttir