Ólafur Þórðarson í þann mund að stanga boltann í netið og tryggja ÍA frækinn sigur á hollensku meisturunum. Ljósm. KFÍA.

Aldarfjórðungur síðan ÍA lagði Feyenoord

Á morgun, laugardaginn 15. september, verða liðin 25 ár síðan ÍA sigraði hollenska stórliðið Feyenoord í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða. Liðin mættust á Laugardalsvelli þennan dag árið 1993 og lauk leiknum með 1-0 sigri ÍA. Sigur ÍA á Feyenoord hefur lengi verið talinn einn sá fræknasti sem íslenskt félagslið hefur nokkru sinni unnið. Fáir bjuggust við þessum úrslitum fyrir leikinn og vöktu þau athygli um alla Evrópu.

 

Þrumuskalli Óla Þórðar

Eina mark leiksins skoraði Ólafur Þórðarson á 75. mínútu með þrumuskalla eftir lipra skyndisókn Skagamanna. Sigursteinn Gíslason lyfti boltanum snyrtilega úr á Mihajlo Bibercic á vinstri kantinum. Þaðan lagði hann boltann á Harald Ingólfsson en tók sjálfur á rás upp kantinn. Haraldur sendi boltann í svæði ofar á vinstri kantinum, beint í hlaupalínu Bibercis, sem kom síðan með fyrirgjöfina sem sveif í átt að vítapunktinum. Þar kom Ólafur á fleygiferð, stakk sér fram fyrir varnarmann Feyenoord og stangaði boltann í hornið niðri. „Það flaug í gegnum hugann þegar sendingin kom frá Bibercic, að setja hann í hornið. Ég smeygði mér framhjá varnarmanninum og hitti boltann vel og það var gaman að sjá hann hafna í netinu. Þetta er án efa eitt fallegasta og mikilvægasta markið á ferlinum,“ sagði Ólafur Þórðarson í samtali við Morgunblaðið að leik loknum. Sigurður Jónsson tók undir það með liðsfélaga sínum. „Við lékum vel í fyrri hálfleik og létum þá boltann ganga en það gekk ekki alveg eins vel í þeim seinni, eða þar til þetta líka mark kom – þvílíkt mark frá minnsta leikmanninum á vellinum. Annars er Óli búinn að vera að gera þetta á æfingum svo þetta kom ekkert á óvart,“ sagði Sigurður og hló.

 

„Hneyksli“ sögðu hollenskir fjölmiðlar

Hollenskir fjölmiðlar fóru ófögrum orðum um frammistöðu Feyenoord í leiknum gegn ÍA. Hollensku meistararnir voru þá taplausir á tímabilinu, þar til á Laugardalsvelli. „Hneyksli að 11 ólaunaðir leikmenn í pínulitlu félagi á Íslandi vinni besta knattspyrnulið Hollands,“ sagði í einu blaðanna. „Skagamenn léku mjög vel og miklu betur en við bjuggumst við. Það er ótrúlegt að þessir leikmenn skuli vera áhugamenn. Það eru margir góðir leikmenn í liðinu sem ráða yfir góðri knatttækni,“ sagði Errol Refus, hægri bakvörður Feyenoord, í samtali við Morgunblaðið.

Tvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir frá Akranesi höfðu gengið í raðir Feyenoord frá ÍA árið áður og Arnar spilaði fyrir Feyenoord í leiknum á Laugardalsvelli. „Skagamenn spiluð mjög vel og náðu að loka vel svæðum Ég fékk ekki mikið rými á kantinum,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið eftir leik. „Mér leið mjög undarlega í leiknum. Það var skrýtið að leika gegn sínum gömlu félögum. Satt að segja vissi ég stundum ekki hvort ég væri að fara eða koma.“

 

„Hafði allan tímann á tilfinningunni að við værum betri“

Á þessum tíma voru Skagamenn með feykilega öflugt lið, líklega eitt af þeim sterkustu sem teflt hefur verið fram hérlendis fyrr og síðar og þeir fóru í alla leiki til að vinna. „Hugarfarið í liðinu á þessum tíma var þannig að við trúðum því ekki að við gætum tapað leikjum,“ sagði Sigursteinn Gíslason í viðtali um leikinn sem birtist árið 2011. Sigursteinn lék afar vel í leiknum gegn Feyenoord og var einn af bestu mönnum vallarins. „Ég hafði það allan tímann á tilfinningunni að við værum betri. Baráttan var mikil í liðinu og þeir náðu sjaldan að skapa sér færi,“ sagði Lúkas Kostic, fyrirliði ÍA í leiknum. „Við lékum okkar bolta og bárum enga virðingu fyrir þeim. Það þarf kjark og sjálfstraust í svona leik og við höfðum það,“ sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari Skagamanna kampakátur í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

 

Tap í seinni leiknum

Hollandsmeistarar Feyenoord sýndu mátt sinn og megin í síðari leik liðanna í Rotterdam og unnu öruggan 3-0 sigur sem fleytti þeim áfram í næstu umferð keppninnar. ÍA féll þar með úr leik en með mikilli sæmd. Yfir þúsund Íslendingar mættu á völlinn í Rotterdam og vakti það mikla athygli. „Íslensku stuðningsmennirnir sköpuðu frábæar stemningu í bænum og komu Hollendingum á óvart. Það átti enginn von á svona frá litla Íslandi,“ sagði Sigursteinn Gíslason um síðari leikinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir