Ólöf Davíðsdóttir ætlar að taka fyrir ljósmyndun í Lýðháskólanum á Flateyri og segist spennt að hefja nám fyrir vestan. Ljósm. glh.

Listakonan Ólöf söðlar um og verður elsti lýðháskólaneminn

„Þetta byrjar 22. september, þá verður skólinn opnaður,“ segir Ólöf Davíðsdóttir listakona í Brákarey í Borgarnesi sem í haust mun söðla hressilega um og setjast á skólabekk í Lýðháskólanum á Flateyri við Önundarfjörð. „Ég verð elst af 30 nemendum sem byrja í skólanum í haust. Næsti á eftir mér er svona rétt um þrítugt.“ Lýðháskólar hafa ætíð verið vinsælir á Norðurlöndunum en einhvern veginn fallið í skugga hér á landi og ekki orðið eins áberandi í skólaflórunni. Lýðháskólar eru þannig starfræktir að þeir henta vel fyrir þá einstaklinga sem vilja til dæmis taka sér hlé frá hefðbundnu námi í menntaskóla eða fyrir einstaklinga sem eru í millibilsástandi í lífinu. Á Flateyri eru engin próf lögð fyrir eða plúsar gefnir fyrir góðan árangur. Í stað þess er lögð áhersla á að prófa hluti, gera hluti og læra af öðrum. Þá er megináherslan sú að hver og einn nemandi uppgötvi og styrki þá einstöku hæfileika sem hver og einn býr yfir í umhverfi sem er fullt af áskorunum. Við Lýðháskólann á Flateyri geta nemendur valið milli tveggja námsbrauta. Námsbrautin Hafið, fjöllin og þú er námsleið fyrir þá sem dreymir um að upplifa náttúruna á nýjan hátt. Þar læra nemendur að ferðast um náttúruna, vinna með hana, nýta, og kanna á öruggan hátt. Námsbrautin, hugmyndin, heimurinn og þú er fyrir nemendur sem vilja þroskast og þróa sig áfram sem skapandi einstaklingar. Þar öðlast nemendurnir færni í ferlum skapandi starfs, allt frá hugmyndavinnu yfir í framkvæmd og miðlun.

„Ég hef mikinn áhuga á ljósmyndun, þá sérstaklega náttúruljósmyndun. Svo langar mig að taka svona hljóðblöndur. Það verður líka boðið upp á námskeið í stuttmyndagerð sem ég er mjög spennt fyrir. Þetta er svo þægilegt fyrir manneskju eins og mig sem er með athyglisbrest,“ segir Ólöf og hlær, en í Lýðháskólanum á Flateyri eru öll námskeið kennd í tveggja vikna hnitmiðuðum lotum. „Við munum fara í fjallgöngur, læra um ferðamálafræði, búskap og sjómennsku. Ég mun fara í kajakróður og svo verður étið beint úr fjörunni og náttúrunni þar sem við lærum hvað jörðin og náttúran hefur upp á að bjóða. Það er ótrúlega margt hægt að gera þarna að það hálfa væri nóg! Svo er þetta einn fallegasti staður á landinu,“ segir hún spennt. “Þetta er svona lífsinsskóli.”

Sjá nánar viðtal við Ólöfu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir